Fancy Dance (2023) 👍👍 {21-20-18-ø}

Einhver besta mynd ársins 2023 (þegar hún var sýnd á kvikmyndahátíðum) eða 2024 (þegar hún fór í almenna dreifingu). Þið ættuð að reyna að finna hana frekar en að lesa það sem ég hef að segja. Sumt hljómar kannski dramatískt og niðurdrepandi en ekki láta það stoppa ykkur.

Eftir hvarf konu sem tilheyrir Seneca–Cayuga þjóðinni þarf fjölskylda hennar bæði að fást við áhugaleysi alríkislögreglunnar og eigin sambönd. Kjarni myndarinnar eru frænkurnar Jax (Lily Gladstone) og Roki (Isabel Deroy-Olson). Báðar leikkonurnar eru stórkostlegar.

Strax á fyrstu mínútum myndarinnar eru undirstrikað að frænkurnar eru langt frá því að vera fullkomnar. Í kringum þær er fólk sem vill oft á tíðum breyta rétt en mistekst. Vel meinandi manneskjur eyðileggja út frá sér vegna skilningsleysis. Allt mjög mannlegt.

Það er eiginlega ekki hægt að tala um Fancy Dance án þess að nefna Killers of the Flower Moon (2023) þar sem Lily Gladstone var líka í aðalhlutverki. Sú mynd var góð þó hún hafi verið of löng til að halda dampi en of stutt til að gera flókinni (sannri) sögu góð skil. Í raun alveg frábært dæmi um kvikmynd sem hefði átt að vera sjónvarpssería.

Fancy Dance segir tiltölulega einfalda persónulega sögu. Þetta er ekki sönn saga en þó raunveruleg. Konur sem tilheyra frumbyggjaþjóðum eru myrtar eða hverfa sporlaust án þess að alríkisyfirvöld sýni því raunverulegan áhuga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *