Robot Dreams er teiknimynd um hund sem eignast vélmennavin. Hugljúf (klisjuorð), og skemmtileg (hversdagsorð). Ingimar var líka hrifinn.
Ég hafði smá áhyggjur af því að myndin væri lof til gervigreindar en svo er ekki. Sagan er töluvert eldri en núverandi gervigreindarbóla.
Fyrirfram vissi ég að myndin væri evrópsk. Reyndar hefði ég fattað það um leið og myndin byrjaði. Ekki út af tungumálinu heldur þessara týpísku nafnarunu um framleiðendur og „í samstarfi við“ sem einkennir samevrópskar kvikmyndir núorðið.
Myndin er samt ekki á spænsku eða frönsku. Það er ekkert talað mál, bara sungið. Hins vegar er mikið um texta sem er allur á ensku og myndin gerist í New York. Það virtist skrýtið en myndin er víst byggð á samnefndri teiknimyndasögu (höfundur: Sara Varon).
Á yfirborðinu er þetta saga um vináttu og einmanaleika en ég held að undir niðri sé hún fyrst og fremst um ástarsambönd. Sérstaklega um ákveðna þætti tengda þeim samböndum en ég gæti farið að höskulda með að kafa dýpra.
Þar sem myndin var gefin út í Bandaríkjunum í fyrra er hún á nokkrum topplistum þess árs. Hvort hún sé svo góð veit ég, eða held, ekki. Það má samt vel mæla með henni.