His Three Daughters (2024) 👍👍 {28-26-24-ø}

Þrjár systur koma saman til að vera hjá dauðvona föður sínum. Sumsé, líf, dauði og fjölskyldudrama. Bara sérstaklega vel heppnað. Myndin hvílir nær eingöngu á þremur leikkonum, Carrie Coon, Natasha Lyonne og Elizabeth Olsen, og gerist nær eingöngu í sömu íbúð.

Mér datt Ingmar Bergman alveg nokkrum sinnum í hug þegar ég var að horfa og ég er greinilega ekki einn um að sjá það. Ég var samt glaður að þessi mynd fjallaði ekki um fjarveru guðs – sem er undirtónninn í flestum myndum Bergman. Hún fjallar um erfið fjölskyldusambönd í skugga dauðans án þess að missa sig í tilvistarangist.

Svona myndir geta svo auðveldlega farið í klisjur en þó ég hefði haft smá áhyggjur undir lokin að myndin væri að fara út af sporinu gerðist það aldrei. Það eru auðvitað leikkonurnar sem láta þetta ganga upp (þó myndin hafi gert mig spenntan að skoða fyrri verk leikstjórans/handritshöfundar). Persónurnar og sambönd þeirra eru bara sannar. Engin fullkomin, engin vond, allar gallaðar.

Tveir þumlar upp. Eygló var líka mjög hrifin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *