Nú er ég ekki búinn að sjá allar þær mörgu myndir sem koma á topplistum síðasta árs eða fengu tilnefningar eða verðlaun. Ég get ekki sagt fyrir hver besta mynd 2024. En af öllum myndum frá 2024 sem ég sá í bíó er Love Lies Bleeding mín uppáhalds.
Ekki fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir kynlífi eða ofbeldi.
Leikstjórinn Rose Glass kom í hlaðvarpið The Movies That Made Me og meðmæli þáttastjórnenda (Joe Dante/Josh Olson) voru slík að ég dreif mig við fyrsta tækifæri.
Myndin fjallar um tvær konur sem verða ástfangnar, önnur vinnur í ræktinni (Kristen Stewart) og hin ástundar vaxtarækt á leið sinni til Las Vegas (Katy O’Brien. Árið er 1989. Múrinn að falla (nóvember) og George Herbert Walker Bush lýgur því að hægt sé að kaupa krakk rétt hjá Hvíta húsinu (september). Reyndar ég ekki viss um að það passi allt út frá tímalínu myndarinnar.
Fjölskylda Kristen Stewart er með endalaust vesen. Allavega pabbi hennar (Ed Harris með besta hárgreiðsluna) og mágur (Dave Franco með skíthælalegasta skíthælinn sinn). Síðan eru það sterarnir.
Það pirraði mig svolítið að margir kvörtuðu yfir því að endalok myndarinnar hafi komið upp úr þurru. Svo er ekki. Þetta fólk fylgdist bara ekki með. Það var ennþá augljósara núna þegar ég horfði á hana aftur. Þetta byggist upp. Skref og skref. Tsjekhov plantar byssum sínum hægri vinstri.
Þessi bíóupplifun var frískandi. Eitthvað allt öðruvísi en það sem við höfum séð síðustu ár. Sú besta sem ég hef séð frá árinu 2024.
Síðan þarf ég bara að drífa mig að sjá fyrri mynd Rose Glass Saint Maud, veit ekki hvers vegna ég hef ekki drifið í því.
Love Lies Bleeding með The Cross hefði átt að vera í myndinni.