Sko, það var búið að höskulda myndina fyrir mér. Ég vissi að óþekkti maðurinn væri Bob Dylan. Kannski væri betra að vita það ekki.
Ég sagði útgáfu af þessum brandara þegar við Gunnsteinn vorum að leggja af stað í bíóið og ég var svo ánægður með að hann að ég þurfti að endurtaka hann hérna.
Myndin fjallar um ris Bob Dylan, fyrstu árin hans í þjóðlagageiranum. Þó ég hafi ekki kynnt mér myndina fyrirfram grunaði mig sterklega hver hápunkturinn yrði. Ég man að fyrst þegar ég heyrði þá sögu var ég allur á bandi Dylan en eftir því sem tíminn líður þá finnst mér þetta hafa verið frekar kjánalegt stönt (þið vitið ef þið vitið). Það má alveg leyfa fólki að njóta þess sem það vill njóta.
Ekki að ég telji Alan Lomax og félaga handhafa þess að skilgreina þjóðlagatónlist. Sem þjóðfræðingur er ég eiginlega á því að þetta sé hugtak sem ekki sé hægt að skilgreina endanlega. Þeir Lomax-feðgar eru auðvitað risar í þjóðfræðinni fyrir söfnun sína á þjóðlögum. Sérstaklega er ég hrifinn af fangelsisblúsnum sem Siggi kynnti mig fyrir en það stingur mig alltaf þegar Alan er titlaður eins og hann sé höfundur eða flytjandi þeirra laga sem hann tók upp. Þó það sé kannski ekki verra en að tala um Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Annars þá var A Complete Unknown uppáhaldsmynd Leonard Maltin’s í fyrra:
No one is more surprised than I, because I’ve never been a Bob Dylan fan… but Timothée Chalamet delivers a compelling and convincing performance as the singular troubadour-poet. By not imitating Dylan’s distinctively whiny voice he even improves on some of the songs.
Maltin skýtur á Dylan en hrósar Chalamet. Þetta er vissulega langsamlega besta mynd Timothée frá því í fyrra. Hin stóra myndin hans greip mig ekki. Annars verð ég að segja að Edward Norton í hlutverk Pete Seeger heillaði mig meira. Eiginlega stórkostlegur.
Elle Fanning fékk ekki sérstaklega mikið að gera. Síðan talaði hún ítrekað um systur sína og ég gat ekki hugsað um annað en að Dakota myndi láta sjá sig.
Þetta er alveg ákaflega góð mynd. Fínt tónlistaruppeldi. Ég söng (lágt) með lögunum. Bob Dylan kemur ekkert sérstaklega vel út úr myndinni og það er líklega sanngjarnt. Skemmtileg líka. Mæli hiklaust með.
Ég er ekki stór Dylan aðdáandi en fór á tónleika með honum um árið (með fyrrnefndum Sigga). Ég bjóst ekki við miklu en við fengum tvo miða á verði eins og þetta var tækifæri til að sjá goðsögn. Mér fannst stúdíóútgáfurnar betri.