Það eru líklega 27 ár síðan ég sá þessa mynd fyrst (og síðast). Það var myndbandsspóla og túbusjónvarp. Mig grunar líka að sú útgáfa hafi verið styttri. Mig minnir að ég hafi á sínum varla haldið athyglinni á myndinni. Hún heillaði mig ekki. Hún hræddi mig ekki.
Nosferatu leikstjórans F.W. Munrau er augljóslega byggð á Drakúla eftir Bram Stoker og fólk tók eftir því. Ekkja höfundarins var rétthafi og tókst að láta eyðileggja flest eintök af myndinni vegna þessa brots á höfundalögum. Það tók marga áratugi að endurskapa heillega útgáfu af myndinni.
Almennt held ég að gamanmyndir þögla tímabilsins eldist betur af því að ýkjukenndi leikstíllinn er oft fyndinn. Það á einmitt við hérna. Taktarnir eru fyndnir og því erfiðara að taka myndina alvarlega.
Mér var hugsað til annarrar myndar Munrau sem heitir Sunrise: A Song of Two Humans (1927). Hún var engin gamanmynd og leikstíllinn var nærri jafn ýkjukenndur. En mér fannst hún virka mikið betur og ég hreifst af henni þrátt fyrir augljósa galla.
Mér þótti skrýtið að það sást sjaldnast á birtunni hvort það væri dagur eða nótt. Það hjálpar ekki að til að koma hryllingnum til skila. Ég velti fyrir mér hvort það sé bara galli á þessari útgáfu af myndinni eða hvort þetta hafi alltaf verið svona.
Það er eiginlega bara undir lokin sem við sjáum raunverulegt myrkur. Þau skot sem ná að koma til skila ógninni sem stafar af Orlok greifa eru einmitt í þessum hluta myndarinnar. En þá erum við búin að sjá hann oflýstan í gegnum alla myndina sem gerir gervið gervilegt sem er erfitt að hugsa þegar myrkrið skellur á. Kannski er myndin meira ógnvekjandi í verri útgáfu á túbusjónvarpi og mögulega mætti sleppa sumum þessum atriðum sem tók áratugi að finna.
Það eru íkonísk atriði í myndinni sem enduróma í gegnum nær allar vampírumyndir sem ég man eftir. Svo er skemmtilegt að sjá hvernig Murnau notar tæknibrellur af sömu sort og Coppola í sinni Drakúlamynd.
Nosferatu heillaði mig hvorki né hræddi í þetta skipti. Hún er mikilvæg í kvikmyndasögunni en ekki sígild í bókstaflegri merkingu þess orðs.
Maltin gefur myndinni ★★★½ sem mér finnst of mikið en kemur ekki á óvart frá honum.