Strange Darling (2024) 👍👍
{53-ø-ø-ø}

Ég sá þessa í bíó og það var þess virði. Þar að auki vissi ég nær ekkert um myndina sem var plús. Þetta er ein af þeim myndum sem ég heyrði fyrst af í gegnum hlaðvarpið The Movies That Made Me. Bæði leikstjórinn JT Mollner og kvikmyndatökustjórinn Giovanni Ribisi (já, bróðir Pheobe í Friends) komu í þáttinn í fyrra. Það var ljóst að Joe og Josh voru mjög hrifnir af Strange Darling og slík meðmæli hafa ekki brugðist til þessa.

Myndin byrjar á Fargo-legum texta að myndin sé byggð á sannri sögu um fjöldamorðingja. Sem er ekki satt. Það eru annars Coen-bræður sem koma upp í hugann þegar ég ímynda mér innblásturinn að myndinni. Strange Darling keyrir samt á meiri hraða en myndir þeirra. Það er aldrei öruggur tími fyrir persónurnar. Myndin er svört gamanmynd, og hryllingsmynd, og glæpamynd.

Myndin er ekki línuleg. Við hoppum fram og til baka. Það væri freistandi að tengja það við Pulp Fiction en ég held varla. Þó hefur Tarantino líklega gert alla djarfari í að spila með tímaröðina. Þetta er gert mjög vel í Strange Darling.

Aðalpersónurnar okkar eru ekki kynntar með nöfnum. Willa Fitzgerald leikur dömuna (minnir aðeins á Juliette Lewis hérna) og Kyle Gallner (Beaver úr Veronica Mars) er demóninn. Ed Begley Jr. og Barbara Hershey leika hippa í kofa í nágrenni skógarins. Það eru fáar persónur í myndinni.

Margir leikarar hafa fært sig á bak við myndavélina í leikstjórastólinn en fáir hafa tekið að sér kvikmyndatöku eins og Ribisi. Hann hefur mikinn metnað fyrir þessu. Litirnir í myndinni eru úthugsaðir en ekki svo að það ætti að fara í taugarnar á fólki. Nema ósennileiki þess að einkennisbúningur hjúkrunarfræðings sé svona rauður.

Tónlistin í myndinni hoppar á milli Chopin, ískurssins sem er svo vinsælt í kvikmyndinum (en fór ekki sérstaklega illa í mig hérna) og rólegheitalaga. Love Hurts er lykillag myndarinnar sem minnti mig auðvitað á að það heyrðist ekki í myndinni Love Hurts.

Ég er ekki einn um þá skoðun að Strange Darling hafi verið ein besta mynd síðasta árs (kvikmyndahátíðir 2023 – almenn dreifing í fyrra). Hún var örugglega, ásamt Love Lies Bleeding, skemmtilegasta nýja myndin sem ég sá í bíói í fyrra. Mæli með fyrir fólk sem verður ekki afhuga myndinni við lesturinn á þessari færslu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *