True Lies (1994) 🫴
{57-ø-ø-12}

Gömul mynd þannig að hér eru höskuldar. Hún er meira að segja frá því merka kvikmyndaári 1994. Schwarzenegger og Cameron saman á ný. Hvað gæti brugðist?

Það er skemmtilegar brellur og klassískar línur frá Arnold. En. Æ. Þetta eldist ekki sérstaklega vel. Myndin er of löng. Kannski hafði ég einhverja samúð með aðalhetjunni þegar ég sá hana á sínum tíma. Hann heldur að konan hans sé að halda framhjá honum og gengur af göflunum. Núna er erfitt fyrir mig að hugsa ekki bara um alla kallana sem leyfa sínum innri incel að taka völdin og gera líf kvenna sem þeir þykjast elska að algjöru helvíti.

Hryðjuverkamennirnir eru vandræðalegar steríótýpur. Þar að auki er bara óendanlega kjánalegt að þeir séu klæddir eins og fólk ímyndar sér að hryðjuverkamenn sé klæddir. Þetta er auðvitað ekki alvarleg mynd en kommon.

Ég á einhvern veginn auðveldara með að sætta mig við Arnold að fljúga Harrier og bjarga dóttur sinni úr krana en að enginn fatti að það er tiltölulega auðvelt að ná einhverju úr steypu sem hefur ekki einu sinni fengið að harðna í heila klukkustund.

Eliza Dushku leikur dóttur aðalpersónunnar. Afskaplega lítil og sæt (og ég var að lesa um hverju hún lenti í við tökur á myndinni eftir að hafa skrifað þetta allt, úff). Því miður á hún verstu foreldra í heimi. Þau bara skilja fjórtán ára dóttur sína ítrekað eftir eina og eftirlitslausa. Var ekki hægt að koma henni í gistingu hjá vinafólki?

Ég fór á Total Recall (1990) í fyrra og hún hafði elst mikið betur. Enda er sú mynd vel heppnuð ádeila (þó það hafi farið framhjá mörgum í gegnum tíðina). Er True Lies ádeila á hasarmyndir síns tíma? Varla. Allavega ekki góð sem slík.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *