Tveir frændur sem hafa misst sambandið fara saman til Póllands á slóðir ömmu sinnar og að kynna sér sögu gyðinga í landinu. Frændurnir eru mjög ólíkir. Annar hefur selt sig kapítalismanum en hinn gerir eiginlega ekkert. Undir niðri eru tilfinningar. Eins og gerist oft.
Jesse Eisenberg skrifaði handritið, leikstýrði og leikur annað aðalhlutverkið. Hann fellur samt í skuggann af Kieran Culkin sem leikur á móti honum og er tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki (þó þetta sé í raun aðalhlutverk, asnalegt kerfi). Auðvitað er hlutverkið betra en Culkin gerir þetta bara svo vel. Hann er skrýtni gaurinn. Hann er plágan og sársaukinn. En auðvitað finna þeir báðir fyrir sársauka, eins og allir, sbr. titilinn.
Þó Edward Norton eigi verðlaunin skilin fyrir frammistöðu sína í A Complete Unknown þá væri ég ekkert leiður þó Culkin myndi vinna.
A Real Pain er nákvæmlega 90 mínútur sem er orðið mjög sjaldgæft. Það mætti gerast oftar en þá mætti líka sleppa hléinu. Hún var ekki að flýta sér, hún var ekki snubbótt, bara gerði það sem þurfti að gera. Það eru mjög áhrifamikil atriði í myndinni en hún er líka ógurlega fyndin.