Godfather Coda: The Death Of Michael Corleone (1990/2020)👍
{98-74-ø-31}

Francis Ford Coppola er mikið fyrir að breyta og reyna að bæta myndir sínar. Það tekst misvel. Apocalypse Now er betri án fiðurfés. Ég var hins vegar mjög ánægður með Cotton Club Encore, þó með þeim fyrirvara að ég hef ekki raunverulegan samanburð við þá upprunalegu.

Þriðja Godfather-myndin fékk skelfilega dóma og ég vissi það áður en ég sá hana fyrst þannig að ég hafði aldrei neinar sérstakar væntingar til hennar. Mér fannst hún hvorki skelfileg né frábær.

Það er frægt að Winona Ryder hætti við að leika í myndinni skömmu áður en tökur hófust þannig að Francis ákvað að fá dóttur sína til að leika dóttur Michael Corleone. Sofia (nú leikstjóri) fékk skelfilega dóma fyrir leik sinn. Hún passar allavega illa inn í mynd þar sem nær allir í kringum hana eru í toppformi. Ég segi næstum því mér hefur alltaf þótt sá sem leikur bróður hennar, hann Anthony, einnig afskaplega andlaus þar til kemur að óperuatriðinu í lokin.

Nú er kannski fulllangt síðan ég sá þessa síðast þannig að ég er ekki alveg viss hvað vantar. Nýja útgáfan byrjar allavega af krafti. Við fáum strax að vita að viðskiptasamningar við Vatíkanbankann eru kjarni söguþráðarins. Gott.

Myndin hefur verið stytt sem er fínt. Sofia fær minna pláss í myndinni. Líka fínt. Kannski mun Francis fá liðsinni vinar síns George Lucas til að fjarlægja hana alveg úr myndinni og setja Ryder í staðinn.

Mér finnst einsog Bridget Fonda sé mun minna í nýju útgáfunni en þeirri upprunalegu. Ég er ekki alveg viss um að það sé framför þó það þjóni auðvitað því að stytta lengd myndarinnar.

Annars er helst galli myndarinnar mögulega sá að Robert Duvall og samband hans við Michael átti að vera meginþráður myndarinnar. Það gekk ekki upp, minnir vegna launadeilna, þannig að við sitjum uppi með Duvallslausa Godfather-mynd.

En myndin er samt uppfull af frábærum leikurum. Andy García, Joe Montegna og Eli Wallach eru þar efstir á blaði. Sá síðastnefndi hefur verið í töluverðu uppáhaldi hjá mér frá því ég sá hann first sem aldraðan og sjóndapran leigumorðingja í myndinni Tough Guys. Ég held að það hafi örugglega verið leikur hans í þessari mynd sem varð til þess að Joe Montegna fékk hlutverk í The Simpsons sem mafíósinn Fat Tony.

Athugið þegar Catherine Scorsese, móðir Martin Scorsese, leikur eldri konu sem biður Andy García um að hjálpa til í hverfinu. Það er líka gaman að mamma hans Andy er leikin af sömu leikkonu og „brá sér afsíðis“ með Sonny Corleone (Jimmy Caan) í brúðkaupi Connie í fyrstu myndinni.

Sá hluti myndarinnar sem fjallar ekki um persónuleg sambönd Corleone-fjölskyldunnar er, sem fyrir segir, um viðskipti við Vatíkanbankann. Margt af því er byggt á raunverulegu hneyksli og dauða Jóhannesar Páls fyrsta. Hérna er spunnið út frá ýmsum samsæriskenninum um þau mál.

Snemma í myndinni sjáum við Michael Corleone nota gamalt bragð ræningjabaróna (og tæknibilljónamæringa samtíma okkar) til hreinsa orðspor fjölskyldunnar. Hann býr til stofnun utan velgerðarmál sem þjónar samt aðallega hans eigin hagsmunum.

Burtséð frá öllum samsæriskenningum er ljóst að viðskiptaheimurinn sem Michael vill tilheyra er jafn miskunnarlaus og grimmur og sú glæpastarfsemi sem hann stundaði meginpart lífs síns. Aðalmunurinn er að þarna berst kerfið fyrir þig en ekki gegn þér.

Persónulegur kjarni myndarinnar er auðvitað endanleg glötun Michael Corleone. Hann hefur með aðild sinni að ofbeldi og glæpum kallað yfir sig og fjölskyldu sína endalausar hörmunar. Hann lætur eins og hann hafi bara verið viljalaust verkfæri aðstæðna en það var auðvitað líka eitthvað í honum sem gerði hann að miskunarlausum morðingja.

Þetta er hiklaust betri útgáfa af þriðju Godfather-myndinni. Hún mun samt alltaf vera í skugganum af hinum tveimur. Þær eru meistaraverk í kvikmyndasögunni. Þessi er réttnefndur viðauki.