Þegar kemur að stjörnugjöf er ég alveg vonlaus. Satt best að segja eru stjörnur vonlausar (sérstaklega í heimi þar sem fjórar stjörnur eru túlkaðar sem meinfýsin árás). Þær geta í besta falli náð að endurspegla skoðanir þess sem gefur stjörnurnar.
Jafnvel innan þess samhengis erum við, flest allavega, oft ósamkvæm sjálfum okkur. Við erum ekki vélar. Við erum stundum í vondu skapi. Það er pirrandi fólk í kringum okkur í bíósalnum, myndin er úr fókus, hljóðið er illa stillt, auglýsingar sýndu bestu atriðin, leikari fer í taugarnar á okkur… Mér finnst líka góðar myndir yfirleitt betri þegar ég sé þær í bíó.
Stjörnurnar sjálfar eru oft illskiljanlegar. Ég hef til dæmis tekið eftir fólk sem talar um dóma Leonard Maltin áttar sig ekki einu sinni á hvaða skala hann gefur myndum einkunn. Ef þú heldur að fimm stjörnur séu hæsta mögulega einkunn hans eru allar líkur á að þér finnist hann yfirleitt ósanngjarn.
Það eru nokkrar leiðir til að nálgast stjörnugjöf. Sumir telja að hæsta einkunn, fjórar eða fimm stjörnur, þýði fullkomnun. Sem er fínt ef við þekkjum þeirra viðmið.
Þannig að mér líkar ekki þegar stjörnugjöf gagnrýnenda er umreiknuð í skala frá einum til tíu. Fyrir utan ólíka nálgun eru allar líkur á að gagnrýnandinn hafi sjálfur námundað stjörnurnar þannig að umreikningur gæti ýkt þá námundun töluvert.
Mér líkar persónulega best við normalkúrvunálgun. Flestar myndir eru á miðjunni en fæstar á sitt hvorum endanum. Mér þykir Leonard Maltin ágætur í því. Ég er með yfirlit um 24 þúsund kvikmyndir sem fengu einkunn í síðustu kvikmyndahandbókum hans.
BOMB [Útgáfa Maltins af ★]: 1011
★½: 2591
★★: 5445
★★½: 7224
★★★: 5732
★★★½: 1758
★★★★: 468
Þetta er ekki fullkomin kúrva en langflestar myndir fá þarna miðlungseinkunn.
Þegar ég er að rembast við að gefa stjörnur lendi ég í augljósum vanda. Ólíkt Maltin (og hans ritstjórnarmeðlimum) þarf ég ekki að sjá allar myndir. Ef mér finnst myndir líta út fyrir að vera lélegar horfi ég ekki á þær. Ef mér finnst þær vonlausar þegar ég er búinn að horfa á fimmtán mínútur slekk ég bara.
Mín kúrva af stjörnugjöfum verður því aldrei nálægt þeirri sem við fáum hjá Maltin. Ef við miðum við hans kvarða myndi ég eiginlega aldrei gefa minna en tvær stjörnur. Um leið er skekkja hinum megin því ég er að eltast við kvikmyndir sem eru almennt taldar sérstaklega góðar.
Þannig að ég hef látið vera að gefa stjörnur hérna á blogginu. Ég byrjaði því að tjákna skoðun mína með þumlum og handabendingum. Í stað þess að hafa stjörnur vildi ég gefa til kynna hve ánægður ég væri með myndina.
Mjög ánægður eru tveir þumlar.
Ánægður er einn þumall.
Sáttur er höndin að lyfta upp.
Tímasóun/frekar ónægður er höndin að þrýsta niður.
Mjög óánægður er þumall niður.
Þetta er allt bundið við upplifun mína. Stundum langar mig til þess að gefa til kynna að kvikmynd sé klassísk. Það er það næsta sem ég kemst því að gefa stjörnur. Mig vantar hins vegar tjákn fyrir kvikmyndir sem hafa sinn sess í kvikmyndasögunni, og jafnvel kvikmyndauppeldi, þrátt fyrir að vera „útrunnar“ að öðru leyti.
Að lokum má ég til með að nefna að uppáhaldskvikmyndir mínar eru ekki nærri því alltaf þær sem ég tel vera bestar. Ég veit vel að ég elska margar myndir sem eru langt frá því að vera áberandi góðar.