MaXXXine (2024) 👍👍
{100-75-51-ø}

Maxine er búin að sigra heim listrænna kvikmynda og snýr sér að meginstraumskvikmyndum. Þá bankar fortíðin upp á. Framhald af X og Pearl. Þessi er alls ekki fyrir alla frekar en hinar myndirnar í seríunni

Þetta er uppáhaldsmyndin mín í seríunni. Sem er ekki almenn skoðun. Þeir dómar frá almennum áhorfendum gefa til kynna að eitt ákveðið atriði snemma í myndinni hafi farið illa í marga (skilaboð til þeirra sem áttuðu sig ekki á feminískum boðskap fyrri myndanna?). Sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn slíku jukki en ég komst yfir það.

Sögusviðið er Los Angeles árið 1985 og mér fannst takast mjög vel að endurskapa þann tíma. Þar að segja, þetta virkaði ekta á mig með þeim fyrirvara að ég þekki þetta bara úr kvikmyndum og sjónvarpi. Mig grunar að það hafi í raun verið markmiðið frekar en raunverulegur raunveruleiki.

Tónlist níunda áratugarins er vel nýtt og það var sérstaklega gaman að fá lag frá Frankie Goes To Hollywood sem heyrist of sjaldan.

Mia Goth keyrir þessa mynd áfram eins og hinar tvær en það er sérstaklega gaman að fá Kevin Bacon í hlutverk skíthæls. Svo var Sophie Thatcher (Heretic og Companion) í einskonar gestahlutverki. Fékk ekki mikið að gera en skemmtilegt að sjá hana. Danski leikarinn Giancarlo Esposito er eftirminnilegur sem umboðsmaður Maxine.

Hér á eftir koma mögulegir höskuldar. Það er alveg hægt að giska á hluta af lokaatriðinu út frá því sem ég er að segja.

Myndin er auðvitað ádeila eins og margar góðar hryllingsmyndir. Hún fjallar um hræðsluna við djöfladýrkun sem tröllréð öllu á þessum tíma og hefur snúið aftur síðustu ár. Þessi mynd er eiginlega and-Særingarmaðurinn. Jafnvel glittar í gagnrýni á það hvernig hryllingsmyndir hafa notað djöfladýrkun í gegnum tíðina.

Svolítið Hollywood Boulevard þarna í lokin. Vantaði aðeins að það væri gengið alla leið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *