Brick (2006)👍
{101-76-ø-ø}

Unglingur rannsakar morð fyrrverandi kærustu sinnar. Allt í Film Noir stíl en söguviðið er venjulegur „framhaldsskóli“ í Bandaríkjunum.

Rian Johnson gerði bestu myndina í síðasta Star Wars þríleiknum. Hann reyndi að brjóta upp mynstrið og bæta við syndir forkvalanna. Því miður guggnaði Disney og leyfði hinum andlausa J.J. Abrams að snúa aftur og eltast við væntingar leiðinlegustu aðdáendanna.

Johnson gerði í kjölfarið hina flottu Knives Out og uppfærði formúlu gamaldags glæpasagna með frábærum leikurum.

Brick kom rúmlega áratug áður en ég tók eftir Rian Johnson.

Ég var augnablik að átta mig á að þetta væri Joseph Gordon-Levitt undir lubbanum. Það er merkilegt af því ég átti auðvelt með að þekkja hann sem krakka í eldgömlum þáttum af Roseanne. Hann er með myndina á herðum sér og nær að vera sannfærandi með talanda og slangur tekið beint upp úr gömlum Noir-myndum.

Af öðrum leikurum verð ég að nefna Lukas Haas sérstaklega. Hann er ekkert sérstaklega ólíkur sjálfum sér eins og ég man eftir honum úr Vitninu.

Í smáatriðum er úrlausn morðsins flókin (jafnvel fáránleg í flækjum). Sem er í Noir-stíl. Um leið er myndin svo trygg hefðum þessarra kvikmynda raunverulegi sökudólgurinn er auðþekktur.

Mér fannst myndin vera alveg á mörkunum að vera stórkostleg. Það sem vantaði var jafnvægi í tóninum. Við höfum fáránleika þess að spila með þessar klisjur í samhengi unglinga en um leið alvarleika lífs og dauða. Brick sveiflast eiginlega á milli.

Veronica Mars sjónvarpsþættirnir komu nokkrum sinnum upp í hugann meðan ég horfði. Ég held að þar hafi einmitt tekist að ná þessu jafnvægi.

En Brick er fáránlega metnaðargjörn í því hvernig hún reynir að vera trú forminu sem líkt er eftir. Það bara gengur ekki alveg upp.

Maltin var frekar hrifinn og gaf ★★★.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *