The Ox-Bow Incident (1943)👍👍🖖
{107-82-ø-ø}

Myndin gerist árið 1885 í Villta vestrinu. Lögreglustjóri lítils bæjar er fjarverandi þegar fréttir berast um að bóndi í grenndinni hafi verið myrtur. Bæjarbúar hafa engin umsvif en vilja leita morðingjann uppi og taka hann af lífi án dóms og laga.[#]

Ég valdi að horfa á The Ox-Bow Incident af einfaldri ástæðu. Á yfirliti mínu yfir kvikmyndir sem ég hef séð er að minnsta kosti ein frá hverju ári frá 1930 til dagsins í dag. Nema 1943 og 1945. Það eru ekki margar frábærar myndir frá þessum árum (hvað ætli valdi?) en ég fann þessa á lista Maltin yfir hundrað myndir frá tuttugustu öldinni sem þú (hann nefnir þig persónulega) þarft að sjá. Núna er ég kominn með sextíu og átta af þeim.

Réttlæti, samviska, múgræði, lög og regla.

Söguþráðurinn er frekar fyrirsjáanlegur. Leikurinn er á köflum stífur og síns tíma. Þetta er eitthvað sem myndi gera margar myndir gjörsamlega óáhugaverðar en hérna skiptir það nær engu máli. Myndin er sígild.

Það eru margir ákaflega góðir leikarar hérna. Henry Fonda, Harry Davenport og Dan Andrews er með stærstu hlutverkin. Síðan er Harry Morgan í leikarahópnum þó ég hafi ekki þekkt hann strax. Ég man aðallega eftir honum úr Dragnet (1987) þar sem hann lék sömu persónu og í upprunalegu sjónvarpsþáttunum.

Anthony Quinn leikur mexíkanskan mann (ef þið vitið ekki þá var Quinn Mexíkani en lék oft persónur af öðrum uppruna) og nær að vera áberandi svalur. Þessi utan eru bæði hvít kona og svartur maður hluti af leitarhópnum. Mér skilst að kvikmyndin sé þar með formlega séð „Woke“.

Ekki nema 77 mínútur og það dugar.

Leonard Maltin gefur ★★★★ sem ég er mjög sáttur við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *