Tækni fyrir vopn er notuð í leikfangaframleiðslu og strákur þarf að takast á við herskáa tindáta (plastdáta). Blanda af tölvuteiknimynd, stopphreyfingu og lifandi myndum.
Ég er yfirlýstur aðdáandi Joe Dante en þegar auglýsingar fóru að birtast fyrir myndina Small Soldiers varð ég hissa og hræddur, mjög hræddur. Hún leit skelfilega út. Einhver undarleg eftiröpun á Toy Story? Hvað er málið Joe?
Flestir gagnrýnendur virtust vera á sama máli (Maltin gaf þó tvær og hálfa sem er meira en ég bjóst við) en ég mæli alveg með því að lesa það sem Jonathan Rosenbaum hafði að segja um myndina.
Við þurfum að lokum að horfast í augu við óttann þannig að ég ákvað að horfa loksins á Small Soldiers. Tók bara rúmlega aldarfjórðung.
Það komu fljótlega nokkrir góðir brandarar. Þannig að ég hugsaði með mér að þetta yrði allavega ekki skelfilegt. Síðan urðu brandararnir bara fyndnari.
Þetta er stórkostleg mynd. Hjálpaði það að væntingarnar voru lágar? Kannski en ég held að það skýri ekki hlátursköstin sem ég fékk yfir henni.
Small Soldiers er augljósasta ádeilumynd Joe Dante og auðvitað er hún að gera grín að öllu sem hún virðist vera á yfirborðinu.
Reyndar var það leikfangaframleiðslan sem greip mig fyrst. Það var verið að nota alvöru þrívíddarprentara (plús tæknibrellur). Þessi tækni er nefnilega gömul en fór ekki á flug fyrren einkaleyfi runnu út.
Tónlistin er frá Jerry Goldsmith sem samdi fyrir flestar myndir Dante með hann lifði. Inn í tónlistina hans er blandað saman vísunum í ýmislegt, s.s. Transformers (teiknimyndaseríuna). Þar að auki koma fyrir vel valin popp- og rokklög.
Leikaraliðið er ótrúlegt. Engar ýkjur. Foringi vondu leikfanganna hefur rödd Tommy Lee Jones og góði foringinn er Frank Langella. Við það bætast margir (þálifandi) úr Dirty Dozen og This is Spinal Tap. Síðan eru Christina Ricci og Sarah Michelle Geller með sem dúkkur.
Leikararnir sem við sjáum eru Gregory Smith (sem ég hef varla séð í neinu öðru en er fínn), David Cross (sem gæti verið launsonur eins fastaleikara Dante), Kirsten Dunst (sem er stórkostleg hérna), Phil Hartman (myndin er tileinkuð minningu hans), Ann Magnuson (hetjumamma) og Kevin Dunn (þið hafið líklega séð hann víða).
Síðan eru fastaleikarar hans Dante: Dick Miller, Wendy Schall og Robert Picardo (launfaðir David Cross). Síðan sjáum við líka frú Futterman (Jackie Joseph sem lék í upprunalegu The Little Shop of Horrors) örsnöggt upp í rúmi með Rance Howard (pabba Ron og Clint og afi Bryce Dallas Howard).
Dirty Dozen leikarar:
- Ernest Borgnine(!)
- Jim Brown
- Bruce Dern (hálfgerður fastleikari Dante)
- George Kennedy
- Clint Walker
Spinal Tap meðlimir:
- Christopher Guest
- Michael McKean
- Harry Shearer