Poor Things (2023)👍👍
{109-84-53-ø}

Þetta er einskonar Frankenstein. Hryllingur, vísindaskáldskapur, grín, gufupönk og töfraraunsæi. Skrýtin en góð skrýtin. Ekki fyrir alla (varla einu sinni flesta).

Ég hef bara séð The Favourite af myndum Yorgos Lanthimos og var ekki jafn hrifinn og margir. Ég hafði ekkert á móti henni, alveg einn þumall upp en ekki mikið meira en það. Það var eitt og sér ekki sérstakur hvati til þess að sjá Poor Things.

En í dag var ég að vinna á bak við tjöldin í Menningarsmyglinu hans Ásgeirs (framtíðarvarðveisla) og rakst á það sem hann skrifaði um Poor Things (og Barbie) þannig að ég ákvað að horfa á hana til þess að geta lesið greinina óhræddur við höskulda (það var alltaf stigsmunur á okkur varðandi þol fyrir slíku).

Poor Things er greinilega undir áhrifum Frankenstein en er í grunninn að afbyggja viðkvæma og eitraða karlmennsku. Munið, það að sýna okkur til að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni er ekki árás.

Myndin er óþægileg til að byrja með. Líklega er sá hluti of fráhrindandi fyrir marga en mér fannst húmorinn vega upp á móti. Þetta er nefnilega ótrúlega fyndin mynd.

Poor Things er líka bara flott. Það kemur alveg sérstaklega vel út að blanda fagurfræði gufupönks saman við töfraraunsæi (eða bara ævintýri).

Emma Stone er sérstaklega frábær. Willem Dafoe og Mark Ruffalo eru upp á sitt besta. Kathryn Hunter fær ekki mikið pláss en er eftirminnileg. Ramy Youssef er líklega með vanþakklátasta hlutverkið en er bráðnauðsynlegur sem „eðlilegi gaurinn“ til að landa bröndurum.

Nekt og kynlíf gæti fælt fólk frá og á köflum er það alveg sérstaklega og viljandi óþægilegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *