Josie and the Pussycats (2001)👍👍
{118-90-ø-ø}

Illur útgáfurisi þarf að finna nýja vinsæla hljómsveit til að markaðsetja til krakka og finna Josie and the Pussycats.

Josie and the Pussycats koma upphaflega úr Archie teiknimyndablöðunum en mig grunar að fleiri hérlendis viti það nú en þá út af Riverdale.

Mín helst tenging við Josie and the Pussycats er að kunna utanað ljóðið sem Mike Myers flutti í So I Married An Axe Murderer.

Ég hef stefnt á að horfa á myndina síðan árið 2001. Við sátum inn á kaffistofu starfsfólks á Kringlukránni og einhver var að útskýra að þetta væri fín mynd sem hefði floppað af því hún var markaðsett fyrir 12 ára stelpur en passaði betur fyrir töluvert öðruvísi áhorfendur.

Myndin byrjar skemmtilega með endurfundum Breckin Meyer og Donald Faison úr Clueless sem leika meðlimi strákahljómsveitar með viðeigandi nafn ásamt Seth Green og gaur sem ég þekkti ekki.

Aðalhlutverkin eru í höndum Rachael Leigh Cook, Tara Reid og Rosario Dawson. Sú síðastnefnda er enn að en hinar minna sjáanlegar í seinni tíð.

Skemmtileg staðreynd, Donald Faison og Tara Reid voru vinir í skóla (Professional Children’s School á Manhattan) og kom seinna fram í nokkrum þáttum af Scrubs. Þau ræddu þetta ítarlega í þætti af hlaðvarpinu Fake Doctors, Real Friends.

Mér sýnist að ég hafi mögulega aldrei séð neina aðra mynd með Rachael Leigh Cook en er allavega ákaflega góð sem titilpersónan.

Síðan höfum við Alan Cumming og Parker Posey sem illmennin. Posey er sérstaklega góð. Örlög þeirra er samt það versta við myndina. Ógurlega hallærislegt.

Ég hló oft yfir myndinni. Boðskapurinn er mjög skýrt gegn neysluhyggju sérstaklega og það hefði verið fínt af tólf ára stelpur myndu almennt horfa á þessa mynd.

Mig grunar að Maltin hefði gefið myndinni meira en ★★ ef dóttir hans Jessie, þá fimmtán ára, hefði fengið að ráða.