Il mio nome è Nessuno / My Name is Nobody (1973)👍👍
{119-ø-ø-ø}

Besta skyttan í Vestrinu ætlar að setjast í helgan stein, sem er voðalegt orðatiltæki, en yngri maður reynir að sannfæra hann um að hætta með hvelli.

Á fyrstu árunum eftir að það kom myndbandstæki á heimilið voru myndir Bud Spencer (Carlo Pedersoli) og Terence Hill (Mario Girotti) ákaflega vinsælar. Ég held ég hafi séð flestar sem voru til á akureyskum myndbandaleigum. Ég man bara ekki nákvæmlega hverjar ég sá þannig að þær eru ekki á stóra listanum yfir myndir sem ég hef séð.

Það voru kunnugleg atriði í Il mio nome è Nessuno þannig að ég held ég hafi horft á hana. Atriðin sem ég man hvað helst eftir eru byssubrellur og kinnhestar. Reyndar er enginn Bud í þessari, bara Terence. Líka einhver leikari sem ég þekkti ekkert á sínum tíma að nafni Henry Fonda. Kannski ég hafi kannast við Steve Kanaly sem Dallas aðdáendur vita að lék Ray Krebbs launson Jock Ewing.

Sergio Leone framleiddi þessa mynd og átti hlut í handritinu. Leikstjórinn er lærlingur hans að nafni Tonino Valerii.

Ég læt vaða á myndina af því ég var að horfa á The ‘Burbs. Ég nefndi að í grófklipptu vinnueintaki Joe Dante af þeirri mynd eru ýmis spagettívestralög á bráðarbirgðarhljóðrás. Jerry Goldsmith samdi nýtt efni fyrir allt nema eitt atriði sem vísar mjög sterkt í myndir Leone. Þar fékk lag Ennio Morricone úr Il mio nome è Nessuno að vera áfram. Ekkert gat toppað það. Enda mjög flott stef.

Myndin er skopmynd af spagettívestra enda er Terence Hill aðallega gamanleikari. Henry Fonda er aftur á móti frekar alvarlegur mestalla myndina. Það virkar yfirleitt vel.

Döbbið fer ekki alltaf vel í mig. Þetta alþjóðlega gengi leikara var líklega bara að segja línurnar sínar á eigin tungumáli og síðan fær einhver annar að flytja línurnar á ensku (sama vandamál ef ég hefði horft á hana ítölsku).

Hvað á að kalla myndina? My Name is Nobody? Il mio nome è Nessuno? Íslenska bíóþýðingin var á sínum tíma Ég heiti Nobody sem er alvarlega andlaust á alla vegu. Á Sýn var myndin kölluð Leigumorðinginn sem er kannski meira skapandi af því það er enginn raunverulegur leigumorðingi í myndinni.

Ég læt vera að lýsa yfir að þessi mynd sé klassísk. Þetta er bara eldri mynd sem mér finnst skemmtileg.

Maltin gefur ★★★ sem er nokkuð sanngjarnt. Hann telur hana þó þjást af oflengd.