Juliet, Naked (2018)👍👍
{122-92-ø-ø}

Kona (Rose Byrne) erkiaðdáanda (Chris O’Dowd) rokkstjörnu tíunda áratugarins hættir með honum og kynnist rokkstjörnunni (Ethan Hawke). Ekki vera svekkt þó það sé engin nekt.

Ég hef lengi verið óljóst meðvitaður um Juliet, Naked og verið með jafn óljóst markmið um að horfa á hana. Þannig að ég skellti henni í tækið (ýtti á play) og horfði á í gegn án þess að muna að hún byggir á bók Nick Hornby.

Nick Hornby er rithöfundur sem Ásgeir kynnti mig fyrir. Mig grunar að ég hafi fengið Fever Pitch, High Fidelity og About a Boy bækurnar að láni hjá honum. Ég sá líka allar myndirnar og það verður að segjast að About a Boy er áberandi slökust af þeim enda hinar frekar góðar. Ég veit ekki hvar Juliet, Naked myndi lenda á þeim lista en allavega ekki í því neðsta.

Lýsingarorðin sem mig langar að nota hljóma næstum eins og ég sé að tala myndina niður. Hún er indæl, hlý og notaleg. Það er bara fínt að horfa stundum á slíkar myndir. Síðan er hún líka fyndin.