Auðnuleysingi í hipsterahverfinu Silver Lake í Los Angeles flækir sig í dularfull mál, morð og samsæri.
Framan af var ég ákaflega ánægður með Under the Silver Lake. Hún er, svipað og Brick, uppfull af beinum og óbeinum vísunum í Noir myndir en líka Hitchcock og Lynch. Samband aðalpersónunnar við nágranna sína er sérstaklega skemmtilegt sem spegilmynd af The Long Goodbye.
Hægt og rólega tapaði myndin mér. Atriðin virtust ekki hafa tilgang annan en að vera skrýtin. Síðan voru þau langdregin skrýtin. Of mikið Lynch, of lítið Hitchcock. Fyrir minn smekk.
Kvenpersónur í myndinni er margar en ekkert sérstaklega áhugaverðar. Þær eru aðlaðandi og aðalpersónan okkar er að eltast við þær af ýmsum ástæðum. Þetta er líklega viljandi og á væntanlega ekki að segja neitt jákvætt um „hetjuna“ en það hefði hjálpað að fá áhugaverðar persónur.
Ef minnst hefði verið á nafn hinnar nágrannakonunnar hefði myndin náð Bechdel-prófinu með lágmarkseinkunn. Bara rétt svo skriðið yfir mörkin.
Það er samt rétt að segja að það er fullt af nafnlausum persónum í myndinni. Við fáum t.d. Topher Grace sem Bar Buddy.
Ég veit að mörgum finnst þetta vera mynd sem öskrar á að það þurfi að horfa á hana aftur en ég heyrði ekki kallið. Ég hef ekkert beint á móti myndinni en mig langaði ekki að kafa dýpra í leyndardómana.