Stúlka sem er hugfanginn af Lundúnum sjöunda áratugarins, Karnabæ og slíku, flytur til Lundúna samtímans til að þess að læra tískuhönnun en raunverulega lexían er sú að nostalgían er betri en raunveruleikinn.
Mér finnst betra að vita sem minnst um myndir fyrirfram. Ég vissi bara að þetta væri mynd eftir Edgar Wright sem hefði hlotið frekar slæma dóma miðað við margar myndir hans. Þar sem ég er mjög hrifinn af Baby Driver og Scott Pilgrim lét ég vaða.
Þetta er hryllingsmynd sem hefði mögulega verið betra að vita áður en ég bauð konu og (eldri) syni að horfa á hana með mér.
Þar sem ég missti af nafninu hennar í rununni í upphafi myndarinnar var ég að ergja mig rosalega að muna ekki hvað aðalleikkonan heitir. Thomasin McKenzie lék í Leave No Trace og Jojo Rabbit. Og hún er frábær.
Spegilsjálfiið er Anya Taylor-Joy sem gerir þetta að þriðju myndinni sem ég hef séð hana á, ekki frá, þessu ári (The Witch / The Menu). Þessi mynd varð víst til þess að George Miller ákvað að fá hana til að leika í Furiosa (Mad Max) sem kom út í fyrra. Síðan minnir mig að hún hafi leikið líka í ofmetinni eyðimerkurmynd.
Matt Smith og Terence Stamp eru leiðindatýpur. Svo er það Diana Rigg í sínu hinsta hlutverki sem eldri kona sem man tímana tvenna.
Myndin var mikið betri en ég bjóst við og auðvitað kallar það á spurninguna hvort lágar væntingar hafi hjálpað? Ég get ekki verið viss en ég held ekki. Það hefði mátt stytta myndina um nokkrar mínútur til að halda dampinum en það ergði mig ekki sérstaklega.