Rock ’n’ Roll High School (1979)👍👍

Skólastjóri er hræddur um að rokk og ról tónlist sé að grafa undan valdi hennar og sker upp herör gegn tónlist og uppreisnargjörnum nemendum.

Þetta er mynd sem ætti að vera klisja en gerir ástúðlegt grín að klisjum. Það að velja Ramones sem hljómsveitina sem uppreisnargjörnu unglingarnir elska er auðvitað sérstaklega gott val af því þetta var raunverulega jaðarhljómsveit en ekki meginstraums tónlist í dulargervi uppreisnar.

Í dag virðist Blitzkrieg Bop vera klassískt rokk en á þessum tíma þekkti fólk almennt ekki Ramones. Atriðin með hljómsveitinni eru vel skotin enda leikstjórinn mikill áhugamaður um tónlist og tónlistarmyndum.

Myndin kemur frá New World fyrirtæki Roger Corman. Allan Arkush er skráður leikstjóri og er ásamt Joe Dante höfundur „sögunnar“. Það er samt flóknara því Dante þurfti um tíma að taka yfir leikstjórn vegna ofþreytu/veikinda félaga síns.

Ég hló oft upphátt. Flestir brandararnir eldast vel.

Frægustu leikarar myndarinnar, utan Ramones, eru líklega Dick Miller og Clint Howard (bróðir Ron, þið hafið séð hann oft). Síðan er Paul Bartel tónlistarkennari skólans (og var víst sá sem stakk upp á Ramones).

Annars mæli ég með heimsóknum Allan Arkush í hlaðvarp Joe Dante (og Josh Olson) The Movies That Made me. Ég held að þetta sé þátturinn þar sem sá fyrstnefndi spjallar um hvernig það var að hafa Martin Scorsese sem kennara í kvikmyndaskóla.

Maltin gefur ★★★ sem er að einhverju leyti týpískt af því gagnrýnendur voru almennt hrifnari af myndinni en almenningur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *