Það er eitthvað gruggugt við þessa píranafiska. Kannski ætla þeir að éta stærri bráð. Fyrsta myndin sem Joe Dante leikstýrði einn. Þetta lítur ekki út fyrir að vera mynd sem ég fíla þannig að ég horfði ekki á hana. Fyrren núna.
Piranha er framleidd af New World fyrirtæki Roger Corman. Dante var greinilega búinn að vinna sig upp eftir að hafa leikstýrt hinni hræódýru Hollywood Boulevard (1976) með Allan Arkush. Þessi kostaði hátt í 700 þúsund bandaríkjadala.
Handritið er skrifað af John Sayles sem er einn allra besti leikstjóri seinni hluta tuttugustu aldarinnar (sbr. Matewan 1987). Launin hans sem handritshöfundur lögðu grunninn að kvikmyndaferli hans.
Það er áhugavert að nýjar Piranha myndir voru gerðar á þessari öld sem falla í flokk viljandi slæmra mynd. Mér líkar ekki við slíkt og það er sérstaklega óviðeigandi hérna.
Ég er hrifinn af myndum sem vita hvað þær eru. Það á við um Piranha. Þetta er B-mynd, ódýr mynd, skrýmslamynd, mynd með samningsbundnum brjóstum. Hún vinnur rosalega vel úr efniviðnum og takmörkuðu fjármagni. Þetta er góð mynd.
Piranha á augljóslega að höfða til sama hóps og hópaðist á Jaws nokkrum árum fyrr. Stundum er hún kölluð ádeila en ég held að það sé bara af því hún er ákaflega fyndin. Hún vísar oft í Jaws sem er ekki sami hluturinn.
Piranha kom út sama ár og Jaws 2 sem varð til þess að Universal íhugaði málaferli en Spielberg sá þess og stoppaði slíkt tal. Þetta var grunnurinn að samstarfi þeirra Dante seinna meir og á tímabili leit fyrir að Joe myndi leikstýra best titluðu mynd allra tíma sem var aldrei framleidd, Jaws 3, People 0.
Þarna var leikaragengi Dante farið að myndast, s.s. Dick Miller, Paul Bartel og Kevin McCarthy (Invasion of the Body Snatchers). Við sjáum bæði John Sayles og Joe Dante í litlum hlutverkum (líklegra samt að við missum af þeim).
Leikkonan Heather Menzies er mögulega helst þekkt fyrir að vera von Trapp barn í Tónflóði (aldrei séð) og Barbara Steele sem leikur vísindamann hér var bæði í 8½ (1963) og The Pit and the Pendulum (1961). Það er Dantískt að velja leikara með slíkan bakgrunn. Hann hafði á þessum tímapunkti unnið með Fellini sem starfsmaður hjá New World.
Maltin fílaði þessa og gaf ★★★. Hann gaf vini sínum Joe aldrei hærri einkunn.