Il Gattopardo / Hlébarðinn / The Leopard (1963)🫴

Sikileyskur prins (hlébarðinn) reynir að tryggja stöðu sína og fjölskyldunnar í kjölfar sameiningar Ítalíu. Þetta er búningadrama sem er tegund af mynd sem ég er oft hrifinn af.

Fín tveggja tíma mynd er því miður þrír klukkutímar. Burt Lancaster er fimmtugur prins sem er persóna sköpuð af hertoga nokkrum sem var bitur við lýðveldið, konungsdæmið, sameiningu Ítalíu og margt fleira. Samúð mín með honum rýrnaði eftir því sem ég þurfti að horfa lengur á hann sýna tilfinningar sínar með svipbrigðum. Ekki Lancaster að kenna.

Þegar ég sá nafnið Claudia Cardinale birtast gerði ég fastlega ráð fyrir að einhver yrði ástfanginn af henni. Ást í kvikmyndum byggist auðvitað almennt á fegurð af því að annars þá þyrfti að eyða meiri tíma í persónusköpun. Ekkert á móti henni, þvert á móti, bara fyrirsjáanlegt.

Terence Hill fær að fljóta með í nokkrum atriðum. Gaman að sjá hann en hann fær ekki mikið að gera.

Annars tók ég eftir að Claudia lék í tveimur myndum árið 1963 sem hafa ákveðin tengsl. Il Gattopardo (Hlébarðinn / The Leopard) og The Pink Panther (Bleiki Pardusinn / La Pantera Rosa). Í báðum tilfellum er um að ræða mann sem er nefndur eftir ketti. En þetta er skemmtileg tungumálapæling. Gattopardo er auðvitað beinþýtt pardusköttur, Leopard er ljónapardus og íslenska orðið er nákvæmlega eins bara með viðbættu H og linmæltum framburði á pardus.

Maltin gefur ★★★★ en hann sá líklega styttri útgáfuna sem er einhvers konar afsökun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *