Gagnkynhneigður karlmaður kynnist samkynhneigðri konu og … Höskuldar fylgja.
Chasing Amy er þriðja kvikmynd Kevin Smith og margir af fastaleikurum hans koma fram. Ég hef ekki horft á myndina í mörg ár og það verður að segjast að ég tók betur eftir göllum kvikmyndarinnar í þetta skipti.
Holden og Banky, leiknir af Ben Affleck og Jason Lee, eru teiknimyndasöguhöfundar og bestu vinir. Alyssa, leikin af Joey Lauren Adams, er teiknimyndasöguhöfundur. Hún er frábær en mér finnst eiginlega að þeir tveir hefðu átt að skipta um hlutverk. Annar er sjarmerandi og hinn er Ben Affleck með skegg sem er svo slæmt að því var eytt af veggspjaldinu (við getum sumsé ekki afsakað þetta með því að segja að þetta hafi verið aðrir tímar, þetta var aldrei ásættanlegt).
Þó Alyssa sé samkynhneigð fellur Holden fyrir henni. Það skrýtna er að lokum fellur hún fyrir honum og þau hefja samband. Banky verður afbrýðissamur og byrjar að snuðra um fortíð kærustu besta vinar síns. Það sem hann uppgötvar fyllir Holden af slíkri minnimáttarkennd að hann getur ekki hugsað sér að halda sambandinu áfram.
Kvikmyndin hefur verið réttilega gagnrýnd fyrir að spila inn í draumóra gagnhneigðra karlmanna að þeir geti „snúið“ lesbíum. Ég held samt að Kevin Smith hafi verið að reyna að segja að kynhneigð sé ekki annað hvort eða. Að þetta sé meira eins og Kinsey-skalinn. Sem ég held að sé alveg rétt og ég held að fólk sé meira á þeirri línu í dag. Þetta er undirstrikað þegar Holden upplýsir að hann sé í ekki „algjörlega“ gagnkynhneigður.
Samt er bara svo margt ógurlega klaufalegt í framsetningu á nær öllu sem viðkemur samkynhneigð. Ákaflega vandræðalegt. Kevin Smith hefur líka sagt að gagnrýni hinsegin fólks á myndina sé meira og minna rétt.
Það tekst betur hjá Kevin Smith að skrifa gagnkynhneigða karlmenn. Í grunninn er þetta nefnilega saga af brotthættri og eitraðri karlmennsku. Við sjáum það í drusluskömmun gömlu skólafélagana og vanmáttarkenndinni sem gagntekur Holden.
Kevin Smith er ekki að lofsama þessa menn.
Strax eftir þetta áhorf komst ég að því að það kom út heimildarmynd fyrir ekki löngu síðan sem heitir Chasing Chasing Amy og fjallar um tengsl leikstjórans, sem er hinsegin, við myndina. Ég ákvað að horfa strax á hana og hún mildaði dóm minn töluvert.
Maltin gefur ★★★½ en hann mætti taka eitthvað af þeim og gefa Mallrats (★½!) í staðinn.