Elizabeth (1998)👎

Elísabet I verður drottning og þarf að standast allskonar áskoranir, raunverulegar og uppskáldaðar.

Þessi mynd fjallar um að kaþólikkar séu vondir og lúmskir. Þeir fremja ótal illvirki vegna illsku sinnar, ólíkt mótmælendunum sem eru góðir gæjar sem neyðast til að gera slæma hluti til að tryggja almannahag.

Elizabeth er næstum óbærilega kjánaleg mynd. Það er ekki minnsta vit í því hvernig hrært er upp í sögulegum atburðum. Það er í sjálfu sér ekkert að því að hunsa það sem gerðist í raun. Það hafa verið gerðar margar góðar myndir sem rugla í mannkynssögunni. Shakespeare var líka góður í þessu. Skáldskapurinn hérna er bara ekki vitrænn, áhugaverður eða skemmtilegur.

Það er svo margt raunverulega áhugavert í sögu Elísabetar en flestu er bara sleppt eða afskræmt þannig að ekkert spennandi er eftir. Við fáum samband hennar við Robert Dudley (hvers bróðir var drottningarmaður Jane Grey í örfáa daga). Stóra spurningin í því sambandi er samt ekki hvort þau sváfu saman heldur hvort hann myrti eiginkonu sína í von um að geta gifst drottningunni.

Hrærigrautur raunverulegra atburða nær hápunkti í lokin þegar okkur er tilkynnt að Elísabet hafi ríkt í 40 ár í viðbót sem þýðir að árið er 1564 en við höfðum rétt áður séð aftöku hertogans af Norfolk sem átti sér stað 1572. Hefði ekki bara verið hægt að sleppa því að gefa upp þessa tölu?

Mér fannst atriðin með Maríu Englandsdrottningu lykta af kvenfyrirlitningu. Síðan er skellt inn smá hómófóbíu (sem var þó vissulega framför frá Braveheart).

Það hefur verið mikið talað um leiksigur Cate Blanchett í hlutverki Elísabetar en ég gat einfaldlega ekki komist yfir hvað þetta var allt vitlaust. Ég sá eiginlega ekkert gott við frammistöðu neinna leikara í myndinni þó margir þeirra séu venjulega frábærir.

Mér fannst franski sendiherrann bæði stirður og kunnuglegur, það var víst hinn eftirminilegi sparkari Eric Cantona. Alveg hafði ég gleymt leiklistarferli hans enda var ég þá nær hættur að fylgjast með fótbolta.

Emily Mortimer er til staðar í gegnum alla myndina en fær varla að segja neitt. Vissuð þið að hún er dóttir John Mortimer sem skrifaði Rumpole-bækurnar?

Ef þið vandið ykkur getið þið séð tólf ára Lily Allen í hópi fylgdarmeyja drottningarinnar. Þið þekkið hana á því að hún er lágvaxin og lítur út eins og hún sjálf (stendur fyrir aftan Cate Blanchett á myndinni sem fylgir).

Maltin gefur ★★★ sem þýðir að hann féll ekki alveg fyrir henni en því miður bendir hann í þetta skiptið ekki á hið augljósa, myndin þjáist af oflengd.