Big Trouble in Little China (1986)👍👍

Jack Burton flækist inn í mikil vandræði í Kínahverfi San Francisco.

Það er alveg óvart að ég hafði ekki séð þessa mynd áður. Ég hef meira að segja byrjað á henni en þurft að hætta vegna einhverrar uppákomu.

Myndin er kjánaleg og fyndin. Mörg bardagaatriðin eru mjög skemmtileg. Að einhverju leyti er hún á grensunni með steríótýpur en stærsta steríótýpan er Kurt Russell sem heimski Bandaríkjamaðurinn sem talar eins og John Wayne og hefur mikla oftrú á sjálfum.

Mögulega væri ég gagnrýnni ef ég hefði ekki hlustað á Jessica Gao (Emmy-verðlaunahafi fyrir súrgúrku Rikka) tala mjög jákvætt um myndina þegar umfjöllunarefnið var asískar staðalmyndir.

Það er annars erfitt að finna Hollywood-mynd þar sem eru jafn margir kínverskir leikarar eða af kínverskum uppruna að leika kínverskar persónur. Það er ótrúlega algengt að láta bara duga að finna einhvern leikara sem lítur út fyrir að vera af asískum uppruna. Síðan höfum við örfáa hvítingja.

Auðvitað er sérstaklega gaman að sjá James Hong sem lék í nær bókstaflega öllum kvikmyndum með kínverskum persónum, hann virðist bókstaflega hafa gert allt allsstaðar í einu.

Victor Wong er samt í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann fékk víst hjartaáfall aðfaranótt 12. september árið 2001 eftir að hafa eytt deginum í að reyna að fá fréttir af sonum sínum sem voru í borginni. Ég komst líka Paul Tillich kenndi honum í háskóla. Fróðleikspunktur fyrir guðfræðinörda.

Margir leikarar úr Big Trouble in Little China unnu fljótt aftur saman í The Golden Child (sem ég hef séð einu sinni, það dugar) og/eða The Last Emperor (sem mig langar að sjá aftur á stórum skjá þar hún er eftirminnilega falleg frekar en góð).

Helstu hvítu leikarar myndarinnar eru Kurt Russell og Kim Cattrall. Þau eru merkilegt nokk miðpunkturinn á veggspjaldinu.

Maltin var ekki skemmt og gaf ★½, sama og hann gaf The Thing. Hann hataði samt ekki öll verk Carpenter því Assault on Precinct 13 (1976) fékk ★★★½.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *