Fucking Åmål (1998)👍👍🖖

Þroskasaga ungra stúlkna sem þurfa að takast á við ástarmálin og að búa í fokkings Åmål.

Það er alveg svolítill Dogme 95 fílingur í myndinni. Ég held að það sé ekkert yfirlýst eða dogmatískt. Líklega er bara mjög eðlilegt að norræn mynd frá þessum tíma sé undir þessum áhrifum.

Varför måste vi bo i fucking jävla kuk-Åmål?

Það er langt síðan ég sá Fucking Åmål síðast. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa átt hana á DVD. Líkt og áin er myndin en ekki söm og ég er ekki samur. Allt í einu er myndin tímahylki. Tískan og símar færa mig aftur í tímann. Þetta er allt svo raunverulegt sem er eitthvað sem ég gæti aldrei fengið úr Hollywood-mynd.

Rebecka Liljeberg og Alexandra Dahlström eru frábærar í aðalhlutverkunum. Af því sem ég tel vera augljósar ástæður var það Agnes sem ég tengdi aðallega við. Núna tek ég eftir því að Elin er frekar dásamleg líka. Hún er alveg jafn skrýtin (sem Agnes bendir réttilega á) en líklega eru unglingarnir tilbúnir að hunsa það af því hún er talin nógu aðlaðandi. Svo hef ég örlítið meiri samúð með grey Johan en mig grunar að það fari allt vel hjá honum

Fucking Åmål er ein af mínum eftirlætismyndum. Ég finn svo mikið til með þeim stúlkum og vill að það gangi allt upp hjá þeim. Síðan er ég alltaf til í að játa að tónlistarsmekkur minn vinnur engar svalleikakeppnir því ég elska I Want to Know What Love Is með Foreigner.

Bláendir myndarinnar er ótrúlega krúttlegur.

Óli gefur ★★★★★. Já, ég ætla að reyna að gefa stjörnur því fólk er gjarnt á að misskilja þumlana. Ég bjó til grunn að kríteríu fyrr í dag en grunaði ekki að ég myndi byrja á að gefa fullt hús því myndin hafði ekki enn verið valin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *