Hæðin þar sem ljónynjurnar öskra / Luaneshat e kodrës / La colline où rugissent les lionnes (2021) ★★★☆☆ 👍

Þrjár ungar konur sem búa í litlu þorpi í Kósovó dreymir um að komast burt en frelsið virðist utan seilingar.

Þegar ég er hrifinn af kvikmyndum fer ég oft í tenglahopp á leikurum og leikstjórum til að sjá hvað fleira ég ætti að setja á stóra áhorfslistann minn. Ein af leikkonunum í Portrait de la jeune fille er Luàna Bajrami og ég tók eftir að hún hefur líka reynt fyrir sér sem leikstjóri og handritshöfundur.

Þó ég efist um að myndin sé sérstaklega sjálfsævisöguleg þá endurspeglar Hæðin þar sem ljónynjurnar öskra¹ uppruna leikstjórans. Luàna Bajrami er fædd í Kósovó en flutti sjö ára til Frakklands. Hún leikur einmitt lítið hlutverk í myndinni, unga konu frá París sem er að heimsækja ættingja.

Styrkleikar myndarinnar eru persónurnar og leikarar en sagan sjálf er aðeins of stefnulaus og endirinn aðeins of snubbóttur. Í heild er ég þó ánægður með myndina og hefði fyrirfram ekki giskað að leikstjórinn væri tvítugur (hún virðist hafa verið byrjuð á henni þegar hún var átján ára). Ef stjörnugjöf mín tæki tillit til aldurs myndi ég hækka hana um hálfa stjörnu.

★★★⯪☆

¹ Almennt er titillinn á frönsku en myndin sjálf er á albönsku. Það ergir manninn sem vill hafa titilinn á frummálinu eða íslensku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *