Babylon (2022) ★★⯪☆☆👍

Svona eins og Singin’ in the Rain nema að ég man ekki eftir, og það er ógurlega langt síðan ég sá hana þannig að mér gæti skjátlast, að það hafi verið svona mikið um nekt, kynlíf og kókaín í þeirri gömlu.

Babylon fjallar um frumár Hollywood og skiptin úr þöglum myndum yfir í hljóð frá leikstjóra La La Land og Whiplash. Eftir því sem ég kemst næst þá var töluvert um nekt og kynlíf á þessum tíma (sér í lagi fyrir Hays-ritskoðunarreglurnar) en ég held að það hefði mátt hafa aðeins minna svoleiðis í myndinni. Ekki að það hafi farið fyrir brjóstið á mér heldur af því myndin er of löng.

Það er of mikið af góðum leikurum í Babylon til þess að ég geti talið þá upp. Brad Pitt og Margot Robbie eru stjörnurnar. Diego Calva var tengiþráðurinn þar á milli. Mjög fínn. Li Jun Li, sem lék nú síðast í Sinners, stóð upp úr restinni. Kaflinn með Ethan Suplee og Tobey Maguire er eftirminnilegur.

Mig langaði til þess að falla fyrir Babylon og á köflum var hún góð. Skemmtileg atriði en líka langdregin atriði. Undir lokin, sem komu alltof seint, vissi ég að þetta var gæsahúðaratriði en húðin mín hélt mannlegri áferð sinni.

Óli gefur ★★⯪☆☆.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *