Munu stjörnur þöglu kvikmyndanna ná að standa af sér hljóðstorminn?
Ég hélt ég hefði séð Singin’ in the Rain áður en ég mundi grunsamlega lítið eftir öðru en nokkrum söngatriðunum. Kannski hafði ég ekki séð hana í heild sinni áður. Það var samt rétt hjá mér að það var minna um kynlíf, nekt og kókaín en í Babylon.
Gene Kelly, Debbie Reynolds¹ og Donald O’Connor leika aðalhlutverkin og gera það vel. Ég þekki Donald ekkert en hans var fyndnasta persónan í þessari fyndnu mynd. Þó ég hafi meira að segja séð klippu með henni fyrir örfáum dögum áttaði ég mig ekki á að Kathleen Freeman léki í myndinni. Ég þekki hana auðvitað best sem Mörgæsina í Blues Brothers og sem sjónvarpskokk í Gremlins 2.
Singin’ in the Rain stenst tímans tönn. Það eru mörg frábær lög (sem ég söng auðvitað með). Það eru ekki bókstaflega öll lögin snilld en nógu mörg. Ef ég ætti að leita að göllum þá get ég nefnt að sum tónlistaratriðin eru kannski aðeins of löng en það er alltaf eitthvað til að skemmta áhorfandanum.
Maltin gefur ★★★★ sem kemur lítið á óvart.
Óli gefur ★★★★★ sem er um það bil sama einkunn.
¹ Mamma Carrie Fisher. Eddie Fisher var pabbinn. Hann yfirgaf Debbie og giftist vinkonu hennar Elizabeth Taylor. Löngu seinna lék þær saman í sjónvarpsmyndinni These Old Broads (2001). Persónur þeirra í myndinni deildu fyrrverandi eiginmanni sem var kallaður Freddie Hunter. Handritið skrifaði Carrie Fisher.