Mademoiselle (1966) ★⯪☆☆☆👎

Fordómar og siðleysi í frönsku þorpi.

Tony Richardson leikstýrir Mademoiselle og Jeanne Moreau leikur aðalhlutverkið og gerir það mjög vel.

Stutta útgáfan af rýninni, höskuldalaus:

Falleg myndataka og nokkur góð atriði falla í skuggann af kvenfyrirlitningu Mademoiselle. Um leið er erfitt að líta framhjá atriðum þar sem dýr eru kvalin, að því er virðist ósviðsett.

Maltin gefur ★★.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎.

Höskuldar hér að neðan. Stórir. Og gróft orðbragð.

Virðuleg einhleyp kennslukona (téð Mademoiselle) laðast að ítölskum farandverkamanni. Getuleysi hennar í að laða hann til sín verður til þess að hún fremur röð af glæpum sem kosta mannslíf.

Það má segja að Mademoiselle sé það sem er í dag kallað incel. Hana langar að lifa kynlífi en kann ekki að bera sig eftir því. Sem hefði getað verið áhugavert ef ekki fyrir hvernig málið er „leyst“.

Uppgjörið felst í því að Mademoiselle gerist sjálfviljug undirgefin í auðmýkjandi kynlífi með verkamanninum. Boðskapurinn virðist vera einhver kallafantasía sem ég heyrði stundum þegar ég var yngri um að, afsakið orðabragðið, piparjúnkur þurfi bara að láta ríða sér almennilega.

Þegar Mademoiselle snýr aftur í þorpið illa til reika gefur hún ranglega til kynna að kynlífið hafi verið gegn hennar vilja þannig að þorpsbúar myrða verkamanninn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *