Þrakkverskur skylmingarþræll leiðir þrælauppreisn gegn Rómarveldi.
Spartakus er ein af þeim myndum sem hefur verið á áhorfslistanum í langan tíma (30+ ár). Hún kom í bíó og við fórum.
Við vitum öll að Rómverjar töluðu með breskum hreim og leikaravalið í Spartacus er miðað við það. Bandaríkjamenn eru í hlutverkum þræla. Eina undantekningin sem ég fann var John Gavin sem leikur Sesar (hann lék líka blanka kærastann í Psycho sama ár).
Stjörnur Spartakusar eru Kirk Douglas (titilhlutverk), Laurence Olivier (Krassus) og Tony Curtis (söngþræll sem fílar ekki snigla).
Peter Ustinov leikur eiganda skylmingarþrælaskóla. Hann er auðvitað þekktastur fyrir að leika Hercule Poirot (ekki jafn góður og David Suchet). Samskipti hans og Peter Laughton í hlutverki Grakkusar¹ eru líklega skemmtilegustu atriði myndarinnar.
Woody Strode er í lykilhlutverki skylmingarþræls sem neitar að vingast við Spartakus. Herbert Lom, í hlutverki umboðsmanns sjóræningja frá Anatólíuskaga, er í vandræðalegasta búning myndarinnar því hann lítur eins og hann komi úr Lawrence of Arabia.
Jean Simmons leikur ambáttina sem Spartakus fellur fyrir.² Mér þótti verulega truflandi að hún var alltaf sýnd í mjúkum fókus (sumsé, úr fókus eða vaselín á linsunni) eins og var svo oft gert með leikkonur hér áður fyrr. Ástarsagan er á mörkunum að verða áhugaverð en nær aldrei að komast alla leið.
Sögulegt samhengi Spartacus er ekki Rómarveldi heldur Hollywood á tímum svarta listans. Handritshöfundurinn Dalton Trumbo var augljóslega að skrifa út frá eigin reynslu þegar honum var útskúfað fyrir aðild sína að Kommúnistaflokknum.³
Þegar kom að því að ákveða hver yrði skrifaður fyrir handriti Spartakusar brást Kirk Douglas ókvæða við þegar Stanley Kubrick stakk upp á sjálfum sér. Hann var harður á að Trumbo fengi nafn sitt á myndina og þar með lauk tíma Svarta listans … nema auðvitað var þessu fólki ekki endilega tekið fagnandi og sumir náðu sér aldrei.⁴
Spartacus er rúmlega þrír klukkutímar að lengd og hefði mátt vera styttri.⁵ Þetta er ekki ein af allra bestu myndum Kubrick.⁶ Hún er samt svo stór í kvikmyndasögunni að hún er eiginlega skylduáhorf. Auðvitað hafa flestir séð vísað í fræga atriðið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en það er ekki það eina sem hefur haft áhrif.
Maltin gefur ★★★½.
Óli gefur ★★★★☆ og er greinilega á sömu blaðsíðu.
¹ Það er ekki að ég búist við sögulegri nákvæmni í Hollywood kvikmyndum en það ruglaði mig alveg að hafa Grakkus þarna, þeir voru auðvitað margir í gegnum tíðina. Þessi er uppskáldaður.
² Tilvist hennar hefur farið framhjá flestum (öllum) sagnariturum fornaldar.
³ Við gætum sagt að allir séu Spartakus nema Elia Kazan.
⁴ Heimildarmyndin Hollywood on Trial (1976) er ágætur inngangur að þessu tímabili, sérstaklega af því leikstjórinn John Huston er sögumaður. Síðan þótti mér The Front góð á sínum tíma. Báðar komu út árið sem Trumbo lést.
⁵ Reyndar var útgáfan sem við sáum er með hómóerótíska atriðinu þar sem rætt er um kosti og galla sniglaáts. Ég er ekki að kvarta yfir því. Það er frægt að þegar atriðið var sett aftur inn þá var hljóðið glatað. Þá var Olivier látinn þannig að Anthony Hopkins gaf honum sannfærandi rödd en það eru ekki allir á því að Tony Curtis hafi verið jafn sannfærandi í hlutverki Tony Curtis.
⁶ Paths of Glory, Full Metal Jacket, 2001 (í bíó), Shining og mögulega þarf ég að gefa einhverjum annað tækifæri. Ég hef aldrei séð Barry Lyndon.