Baby Driver (2017) ★★★★★👍👍

Ungur maður hefur gaman af því að keyra og hlusta á tónlist.

Mér hefur aldrei dottið í hug að horfa á Hina hröðu og fokvondu. Bílahasar og eltingaleikir gera lítið fyrir mig. Ég kann samt að meta það sem er vel gert.

Stjarna Baby Driver er tónlistin. Í helstu atriðum myndarinnar þjóna athafnir og hasar þeim lögum sem er í gangi á hverjum tíma. Það eru margar myndir sem hafa reynt þetta en það hefur sjaldan tekist jafn vel.

Þó Baby Driver treysti á hljóðrásina meginhluta myndarinnar eru þögul atriði þar sem hlutir eru sagðir sem flestir áhorfendur, ég þar með talinn, skilja ekki nema út frá svipbrigðum þeirra sem tala saman. Kannski er táknmálið textað í einhverjum útgáfum en ég er ekki alveg viss hvort ég vilji fá þýðingu orð frá orði.

Heyrn er sumsé eitt meginþema Baby Driver. Titilpersónan notar heyrnartólin, í eyra ekki á, sem skjöld. Hann drekkir út suðinu og sorginni með tónlist en einangrar sig líka frá mannlegum samskiptum. Þegar tónlistin stoppar er hann berskjaldaður. Ég veit ekki hvort hann myndi nokkurn tímann hlusta á hlaðvörp þó hann noti svokallaða tónhlöðu¹ til að fylla eyru sín.

Mögulega er ást mín á Baby Driver að töluverðu leyti skýrð með notkun Edgar Wright á laginu Brighton Rock með Queen. Lagið kemur tvisvar fyrir í mjög ólíkum aðstæðum. Í fyrra skipti sér Jamie Foxx um að afskrifa Queen líkt og svo margir hafa gert í gegnum tíðina.

Brighton Rock er galið lag. Það blandar saman camp-húmor og þungarokki á dásamlegan hátt. Það er auðvitað gítarsólóið sem fólk man eftir, enda hefur Brian May notað það sem grunninn að gítarspuna á tónleikum á síðan. En mér þykir vænt um húmorinn og háðsrómantíkina. Það hvernig Freddie leiðir okkur úr spjallstílnum yfir í þungarokkið er í miklu uppáhaldi.²

Þó ég tali aðallega um tónlistina þá eru leikararnir frábærir. Sérstaklega gaman að sjá Paul Williams (höfundur Rainbow Connection) í litlu og óvenjulegu hlutverki. Flea og Jon Bernthal eru líka skemmtilegir.

Af aðalleikurunum að segja þá neglir Ansel Elgort titilhlutverkið. Jon Hamm og Eiza González eru frábær sem galna glæpaparið. CJ Jones sem leikur fósturpabba Baby er sjálfur heyrnarlaus (sem er augljós kostur). Lily James er aftur á móti ekki bandarísk en náði að plata mig (ég fyrirgef henni).

Eftir að hafa séð bæði Scott Pilgrim og Baby Driver nýlega í bíó er ég eiginlega á því að fyrrnefnda myndin sé betri. Þó allar myndir Edgar Wright treysti mikið á tónlist þá á það kannski best við um þessar tvær. Gunnsteinn, sem hefur hlustað stíft á tónlistina úr þessari síðustu ár, er á öfugri skoðun.

Nú bíðum við bara eftir The Running Man.

Óli gefur ★★★★★👍👍

¹ Tónhlaða er dæmi um það hvernig nýyrðasmiðir leggja oft óþarfa orku í að þýða vöruheiti þegar þeir ættu frekar að þýða almennari orð og hugtök. Orðið lifir nú eingöngu sem hluti orðsins hlaðvarp.

² Nú hef ég ekki lesið bókina Brighton Rock en ég held það séu lítil tengsl við texta lagsins nema að því leyti að ljósaborgin sem áfangastaður ferðamanna er í lykilhlutverki.

Happy little day, Jimmy went away
Met his little Jenny on a public holiday
A happy pair they made, so decorously laid
‘Neath the gay illuminations all along the promenade
It’s so good to know there’s still a little magic in the air
I’ll weave my spell

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *