The Wonder (2022) ★★★★★ 👍👍

Nokkrum árum eftir endalok hungursneyðarinnar miklu er enskur hjúkrunarfræðingur¹ fenginn til að fylgjast með írskri kraftaverkastúlku sem hefur ekkert látið sér til munns í marga mánuði annað en mana af himnum. Anorexia mirabilis er ógeðfellt hugtak.

The Wonder er líklega best flokkuð sem sálfræðileg hryllingsmynd og hún virkar ákaflega vel sem slík. Allavega á mig.

Mögulega er áhugi minn á Írlandi lykilþáttur í því hve fast þessi The Wonder greip mig. Eins og venjulega þegar ég horfi á verulega góðar myndir var ég byrjaður að færa mig framar til að vera nær sjónvarpinu.

The Wonder er þriðja² myndin á stuttum tíma sem ég hef séð með Florence Pugh og sú fyrsta af þeim sem mér finnst mæta leikhæfileikum hennar. Hún hefur meira að vinna með í þetta skiptið.

Stúlkan og móðir hennar eru leikin af mæðgunum Kíla Lord Cassidy og Elaine Cassidy. Ég er ekki viss um að tengsl persónu Niamh Algar hafi verið útskýrð í The Wonder en ættarnafnsins vegna giska ég að hún eigi að vera systir föðursins. Tom Burke (Mank, Black Bag) leikur blaðamann. Toby Jones er þorpslæknirinn. Síðan eru fleiri kunnugleg andlit á svæðinu

Ásamt höfundi bókarinnar The Wonder (Emma Donoghue) og leikstjóranum Sebastián Lelio er Alice Birch skráð fyrir handritinu. Hún var líka einn af höfundum Lady MacBeth sem gerist nokkrum árum síðar og skartar einnig Florence Pugh í aðalhlutverki.

The Wonder fjallar um ákveðna hluta af írskri menningu og sögu. Það er oftar sem kvikmyndir um Írland fjalli um ytri kúgun (sem er enn raunveruleg) en hérna er það innri kúgun sem er í aðalhlutverki. Ég myndi jafnvel segja að það votti fyrir mjög dulbúnum þáttum úr ævi höfundarins.

Fólk sem er neikvæðara fyrir The Wonder nefnir oft á tíðum römmunartækni myndarinnar sem ástæðu þess. Sjálfur hafði ég ekkert á móti henni þó það hefði kannski alveg mátt sleppa því öllu.

Óli gefur ★★★★★ 👍👍

¹ Eða bara hjúkrunarkona. Persónan var eiginlega af fyrstu kynslóð nútímahjúkrunar og væntanlega án formlegrar menntunar. Ég veit ekki hvort það ætti að vera einhver aðskilnaður þarna.

² Sjá Lady MacBeth og Fighting With My Family. Ég var hrifnari af A Good Person (2023).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *