Árið 1987 er eitthvað skrýtið á sveimi í Oakland og hér eru fjórar laustengdar sögur tengdar því. Hryllingsmynd? Kannski. Allavega töluvert blóð.
Freaky Tales er skrifuð og leikstýrt af Rick Fleck og Anna Boden. Þau eru líklega frægust fyrir að hafa leikstýrt og verið meðal handritshöfunda Captain Marvel.¹ Þau hafa afrekað ýmislegt fleira sem er núna komið á listann minn.²
Það var Geoff Tate (grínistinn, ekki Queensrÿche gaurinn) sem kom Freaky Tales á listann minn þegar hann mælti með henni í síðasta þætti af Doug Loves Movies. Þar mælti Shane Black með Companion (2025) sem er auðvitað flott mál því hún er enn efst á lista mínum yfir bestu myndir ársins.
Ég var mjög hrifinn af Freaky Tales. Strax í lok fyrstu sögunnar var ég fallinn fyrir henni. Stundum fannst mér sögurnar lengi að komast af stað en það eru ástæður. Eins og alltaf í svona anþológíumyndum eru sögurnar misgóðar en það munar ekki miklu.
Pedro Pascal er frægasti leikari myndarinnar fyrir utan þennan miklu frægari sem ég ætla ekki að segja ykkur frá því það er örugglega skemmtilegra að láta koma sér á óvart.
Svo eru þarna m.a. Ben Mendelsohn (Captain Marvel), Keir Gilchrist (It Follows), Jay Ellis og Ji-young Yoo. Einn leikari var kunnuglegur og skemmtilegur. Ég fletti honum upp og komst að því að hann væri látinn, það gerðist raunar áður en Freaky Tales og Abigail (þaðan sem ég kannaðist við hann) komu út.³
Óli gefur ★★★★☆👍👍.
¹ Ég var frekar ánægður með Captain Marvel, sérstaklega af því ég þurfti ekki að horfa fyrst á tíu aðrar myndir til að vita hvað væri á seyði. Brie Larson (kafteinninn) lék í Community sem kallar á mikla góðvild af mikilli hálfu. Þó ég sé ekki alveg að kaupa allt sem Russo-bræðurnir hafa gert eftir að þeir tóku þá stórundarlegu ákvörðun að yfirgefa besta sjónvarpsþátt allra tíma.
² Skrýtið hvað listinn lengist eftir því sem ég horfi á fleiri kvikmyndir.
³ Freaky Tales fellur í þann hóp mynd sem hafa óljóst útgáfuár. Hún var sýnd á Sundance í fyrra en fór í almenna dreifingu í ár.
