Somewhere in Time (1980) ★★☆☆☆🫳

Leikskáld finnur fyrir tengingu við leikkonu frá öðrum áratug tuttugustu aldar sem leiðir til tímaferðalags.

Fyrra stóra vandamál Somewhere in Time er að hún er ógeðslega lengi að koma sér að efninu. Seinna stóra vandamálið er að ástarsagan er innihaldslaus. Þar sem myndin byggir á skáldsögu virðist líklegt að þetta sé bara beinagrindin og kjötið sé ennþá á blaðsíðum bókarinnar.

Christopher Reeve er leikskáldið og það tók mig smá tíma að hætta að hugsa bara um hann sem Ofurmennið. Jane Seymour er leikkonan. Þau eru voðalega sæt en það er ekki nóg til þess að ég styðji ást þeirra. Christopher Plummer er umboðsmaðurinn sem einhvern veginn virðist vita meira um hvað er á seyði en það er ekkert skýrt.

Væmnin í tónlist John Barry virðist vera í beinu samhengi við vaselínið sem smurt var á linsuna.

Bill Erwin leikur vikapilt í myndinni. Hann lék gamla kallinn í ótal myndum og sjónvarpsþáttum. Mögulega var eftirminnilegasta hlutverkið hans í Seinfeld. William H. Macy sést örsnöggt í upphafsatriði og George Wendt (NORM!) var víst klipptur úr myndinni.

Maltin gefur ★½.

Óli gefur ★★☆☆☆🫳 og er á mörkunum að kreppa hnefann.