Alphaville (1965) ★★★★⯪👍👍

Dystópía sem blandar saman vísindaskáldskap og film noir.

Það er til mynd sem ég kalla stundum í pirringi mínum Andleysi Godard. Ég var ekki, alls ekki, hrifinn af henni þó margir virðist telja hana meistaraverk.¹ Þannig að ég hafði mínar efasemdir um Alphaville eftir Jean-Luc Godard. Aðalleikarar eru Eddie Constantine og hin danska Anna Karina (sem var á þessum tíma eiginkona Godard).

Kemur ekki í ljós að Alphaville er stórskemmtileg og fáránleg, viljandi. Myndin gerist í borg fjarlægri stjörnuþoku² sem er stjórnað af tölvu sem hefur gert tilfinningasemi útlæga.

Líkt og í flestum noir-myndum fylgjumst við með „spæjara“ rannsaka mál. Líkt og oft gerist í slíkum myndum er rannsóknin handahófskennd og er hetjunni okkar oft bara fleygt til og frá án þess að áttum okkur á því nákvæmlega hvað er að gerast.

Alphaville gerir sumsé grín að bæði noir og vísindaskáldskap. Það er undirstrikað í lokauppgjörinu og endinum sjálfum.

Maltin gefur ★★ og segir að myndin sé einungis fyrir harðkjarnaaðdáendur frönsku nýbylgjunnar.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍 og er orðinn jákvæðari fyrir því að kíkja á fleiri nýbylgjumyndir.

¹ Mig minnir að Roger Ebert hafi sagt að À bout de souffle (1960) marki upphaf nútímakvikmynda. Hvort sá nútími standi enn yfir er óljóst. Sjálfur hef ég stundum hugsað um Transformers (2007) eftir Michael Bay sem upphaf nútímakvikmynda. Allavega fannst mér það vera tímapunkturinn þar sem Hollywood missti mig.

² Þetta er samt miklu skringilegra en það hljómar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *