Graskerskóngurinn er útbrunninn og heldur að jólin muni færa honum hamingju.
The Nightmare Before Christmas kom í bíó á Íslandi um jólin 1994 og fæstir tóku eftir henni. Ári seinna mælti Þórður Rafn sterklega með myndinni við mig þannig að ég greip hana um leið og ég sá spóluna í Vídeóver í Kaupangi.
Það er frægt að Tim Burton vann fyrir Disney-fyrirtækið í upphafi síns ferils. Það gekk brösuglega. Honum tókst þó að gera tvær stopphreyfimyndir á þeim tíma, sú frægari er Frankenweenie en ég mæli sérstaklega með Vincent þar sem Vincent Price leikur sjálfan sig.¹
Disney sparkaði Burton en átti samt réttinn að hugverkum hans frá þeim tíma sem hann vann hjá þeim. Þegar leikstjórinn sló í gegn með myndum eins og Pee-wee’s Big Adventure og Beetlejuice gat hann sannfært gömlu vinnuveitendur sína um að gera alvöru úr einni af þeim hugmyndum sem fyrirtækið átti.
Tim Burton var reyndar svo upptekinn að hann gat ekki leikstýrt The Nightmare Before Christmas sjálfur. Þar kom Henry Selick inn í myndina. Það leikstjórnarhlutverk var ekki þakklátt því margir vanmeta hans þátt. Þessi myndir bjó sig ekki til sjálf á meðan Tim Burton var að vinna að öðrum verkefnum.
Helstu leikarar The Nightmare Before Christmas eru Catherine O’Hara (Beetlejuice Beetlejuice, Beetlejuice), Glenn Shadix (Beetlejuice), William Hickey (t.d. gamli frændinn í Christmas Vacation) og Paul Reubens (Pee-wee’s Big Adventure).
Rödd Jack Skellington er tvískipt. Chris Sarandon (ótal myndir og fyrrverandi eiginmaður Susan) er talrödd Jack. Söngröddin er tónskáldið sjálft, Danny Elfman.
Disney hafði enga trú The Nightmare Before Christmas. Það sést best á því að hún var gefin út undir merkinu Touchstone. Slíkar myndir voru annað hvort ekki nægilega góðar til að fá Disney stimpilinn eða ekki nógu fjölskylduvænar.
Í gegnum árin hefur The Nightmare Before Christmas verið nær árlegur fasti í október/nóvember hjá fjölskyldunni. Kannski var ég gleraugnalaus í fyrra eða mögulega er 4K útgáfan orðin betri. Allavega gat ég notið ótal smáatriða sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Það er magnað að sjá hvílík vinna var lögð í myndina.
The Nightmare Before Christmas er einfaldlega orðin klassísk. Það vinnur allt saman, söguþráður, tónlist og myndefni. Það er ekki skrýtið að Disney sé nú farið að eigna sér myndina sem fyrirtækið taldi ekki nógu merkilega árið 1993.
Maltin gefur ★★★
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 og skilur ekki af hverju The Nightmare Before Christmas sé ekki í bíó á hverju ári.
¹ Það hljómar kannski skringilega en samband Tim Burton og Vincent Price er á vissan hátt grunnurinn að sambandi Bela Lugosi og titilpersónunnar í myndinni Ed Wood.
