The Wolf of Wall Street (2013) ★★★⯪☆👍

Ris og fall og endurkoma svikahrapps.

The Wolf of Wall Street ætti að vera augljós viðvörun til fólks að treysta ekki svikahröppum á borð við þann sem Leonardo DiCaprio leikur. Um leið ættu áhorfendur að sjá að fjármálakerfið er spillt og þjónar aldrei hagsmunum almennings. Það er það sem ég held að Martin Scorsese vilji segja.

The Wolf of Wall Street sýnir uppgang þessa svikahrapps í slíku ljósi að margir virðast hafa litið á hann sem fyrirmynd. Þó Scorsese sýni fallið þá eru senurnar með fallegum nöktum konum eftirminnilegri. Ef þú græðir nóg getur þú fengið að sofa hjá Margot Robbie.

Auðvitað eru þeir sem sjá svikahrappinn í þessum hetjuljóma yfirleitt ekki þeir sem munu verða ríkir á siðlausum viðskiptum heldur þeir sem munu missa peningana sína í peningaleitinni. Kannski hefði mátt eyða einhverjum tíma í að sýna hvernig fór fyrir þeim sem fjárfestu hjá þessu gaur.

Þetta loðir við myndir Scorsese. Það eru endalaust margir sem horfðu á Taxi Driver, Goodfellas og jafnvel Raging Bull og sáu Travis Bickle, Henry Hill og Jake Lamotta í einhverjum dýrðarljóma. Með flottri kvikmyndatöku og réttri tónlist verða skíthælarnir svalir. Hæfileikar kvikmyndargerðarmannsins Scorsese sem kvikmyndagerðarmanns vinnur þannig gegn boðskapnum.¹

Ef við lítum framhjá þessum siðferðislega vinkli er hið augljósa að The Wolf of Wall Street er of löng. Það þurfti ekki þrjá klukkutíma til að segja þessa sögu. Hún er satt best að segja ekki nógu áhugaverð til þess. Aftur á móti er hún oft fyndin.

Myndin er uppfull af góðum leikurum og ég nenni varla upptalningu. Það var auðvitað sérstaklega gaman að sjá Rob Reiner í hlutverki föðursins í ljósi þess að persóna hans Marty Di Bergi í This is Spinal Tap var augljóslega byggð á Martin Scorsese. Svo er augljóslega gaman sjá Jonah Hill í hlutverki Nikótínsalans Sven.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að mynd um óhóf sé óhóflega löng.

Óli er aðeins hressari og gefur ★★★⯪☆👍 en líklega nær þremur en fjórum.

¹ Þegar ég var að leita að mynd til að skreyta þennan dóm var augljóst að nær öll skjáskot og kynningarmyndir voru af svala svikahrappnum og nær ekkert af falli hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *