Tveir frændur hafa komist að þeirri niðurstöðu að forstjóri stórfyrirtækis eigi sök á því hve hræðilegt líf þeirra er og reyna að leysa vandamálið með ófyrirséðum afleiðingum.
Þar sem ég var ákaflega hrifinn af Poor Things hafði ég töluverðar en kvíðablandnar væntingar til Bugonia sem er gerð af sama leikstjóra, Yorgos Lanthimos. Þetta var ekki gleðirík bíóferð því myndin hófst ekki fyrren hálftíma eftir auglýstan sýningartíma. Það var sumsé pirringur í loftinu. Takk Sambíóin Álfabakka.
Í stuttu máli er Bugonia ein besta kvikmynd þessa árs. Hún er sú eina sem er í raunverulegri samkeppni við Companion um efsta sætið. Þegar ég fer yfir árið í heild eru allar líkur á að ég horfi aftur á þessar tvær myndir.
Bugonia er mjög dökk gamanhryllingsmynd. Alveg með þeim dekkstu. Hún fjallar um stöðu heimsins á ákaflega gagnrýnin hátt. Nú er ég ekki alveg viss um að allir túlki myndina á sama hátt en mér þótti boðskapurinn þó frekar skýr og að í honum fælist nauðsynleg skilaboð.
Íslenski texti myndarinnar var á köflum mjög vandræðalegur. Verst var líklega að tvíræðni enskunnar í notkun persónufornafna glataðist algjörlega. Það náði líka að ergja mig töluvert að þýðandinn hafði ekki einu sinni fyrir því að fletta upp orðinu „shibboleth“ og ákvað að þýða það sem „slagorð“.¹
Emma Stone og Jesse Plemons eru jafn góð og við var að búast. Alicia Silverstone var óþekkjanleg.² En það er hinn ungi Aidan Delbis í hlutverki frændans sem veit ekki alveg hvað er á seyði sem slær í gegn.
Bugonia er endurgerð af suður-kóreskri mynd sem kallast Save the Green Planet! (2003). Miðað við hve skýrar vísanir þessi nýja mynd hefur í samtíma okkar get ég ímyndað mér að mörgu hafi verið breytt.
Bugonia er að öllu leyti frábær mynd. Kvikmyndataka, hönnun, klipping … Það eina sem gerði mig efins um að splæsa á hana fimm stjörnum³ var að mér þótti Poor Things betri.
Óli gefur ★★★★★👍👍.
¹ Bókstaflega þýðingin hefði auðvitað verið sjibbótet en þar sem við notum þessa Biblíuvísun ekki í daglegu máli mætti í staðinn segja „lausnarorð“. Sagan sjálf er frekar óhugnanleg en hljómar jafnvel verr eftir atburði síðustu ára.
Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: „Leyf mér yfir um!“ þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: „Ert þú Efraímíti?“ Ef hann svaraði: „Nei!“ þá sögðu þeir við hann: „Segðu ,Sjibbólet.'“ Ef hann þá sagði: „Sibbólet,“ og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.
² Ég þekkti hana allavega ekki.
³ Ég gef ekki einkunnir á kúrvu, ég er með ákveðna stigagjöf, mínusar og plúsar sem gefa kvikmyndum af mismunandi tegundum að ná upp í fimmta sætið. Ef ég umbreytti stjörnugjöf minni á nýjum kvikmyndum í tölur er meðaltalið á milli fimm og sex á skalanum 1-10.
