Batman Returns (1992) 👍👍🖖

Leðurblökumaðurinn etur kappi við myrku spegilmynd sína á sama tíma og hann reynir að feta sig áfram í ástarlífinu.

Árið 1990 fékk Joe Dante hrúgur af peningum frá Warner Bros. til að gera hvað hvað sem honum datt í hug með framhaldsmyndina af Gremlins. Árið 1992 fékk Tim Burton hrúgur af peningum frá Warner Bros. til að gera það sem hann vildi með Batman 2. Út úr þessu komu tvö meistaraverk sem almenningur féll ekki fyrir strax en hafa með tíð og tíma verið endurmetin.

Það sést á Batman Returns að Tim Burton fékk að stjórna. Tónlist Danny Elfman fær að njóta sín ótrufluð. Búningar og sviðsmynd eru jafnvel gotneskari en í fyrstu myndinni. Síðan eru mörgæsirnar. Flestar raunverulegar. Þær standa uppúr.

Batman Returns sker á flest sem tengir hana við fyrri myndina. Fyrir utan Keaton eru það líklega bara Michael Gough (Alfreð) og Pat Tingle (Gordon) sem koma fram í báðum myndum. Þeir tveir héldu svo hlutverkum sínum Batman Forever og Batman and Robin og eru líklega það eina sem gefur til kynna að myndir Joel Schumacher tengist Burton-myndunum.¹

Þó Batman Returns hafi skilað hagnaði var henni ekki vel tekið. Hún var talin of myrk. Of mikið ofbeldi. Of miklir kynferðislegir undir- og yfirtónar. McDonald’s fór í fýlu vegna þess að samningar um hamingjumáltíðarleikföng höfðu byggt á hugmyndum um barnvæna mynd.

Ég féll ekki fyrir Batman Returns á sínum tíma. Ég náði henni ekki. Hún er allt öðruvísi en upprunalega Batman Tim Burton. Í þetta skiptið áttaði ég mig á að hún er einfaldlega miklu betri.

Mig grunar að Dan Waters eigi stóran þátt í hve skemmtileg Batman Returns er. Hann á mest í handritinu þó hann hafi haft athugasemdir við ákveðnar breytingar sem voru gerðar. Áður hafði hann skrifað Heathers og verið einn af höfundum Hudson Hawk (líklega vanmetnasta mynd Bruce Willis). Það er alveg hægt að sjá línu frá fyrri verkum Dan Waters yfir í Batman Returns.

Michael Keaton er mun öruggari í titilhlutverkinu en í fyrstu myndinni. Hann virðist skemmta sér. Í þetta sinn fékk hann líka mótleikara sem gáfu af sér í stað þess að leika í áttina að honum. Það eru Christopher Walken², Danny DeVito³ og Michelle Pfeiffer sem leika skúrkana.

Það mætti búast við því að Walken myndi stela myndina eins og Nicholson gerði í þeirri fyrri. Svo er ekki. Mögulega vegna þess að hann fær ekki búning en líklega frekar vegna þess hve hörð samkeppnin er.

Nú er ég ekkert rosalega hrifinn af viðrinaskúrkum á borð við Mörgæsina. Í Batman Returns virkar það samt. Að einhverju leyti er það samúðin sem Tim Burton sýnir persónunni en aðallega er það er vegna þess að Danny DeVito⁴ er upp á sitt besta. Hann veltir sér upp úr ógeðinu, stundum bókstaflega.

You’re just jealous because I’m a genuine freak and you have to wear a mask.

Michelle Pfeiffer gefur sig alla sem Kattarkonan. Hún lærði að nota svipu þannig að þegar persónan beitir vopni sínu til að afhöfða gínur þá var það leikkonan sem framkvæmdi bragðið. Í lykilatriði milli mörgæsarinnar og kattarkonunnar setti hún lifandi fugl upp í munninn á sér.

Það er klisja að setja gleraugu á fallegar konur og klæða þær í óspennandi föt. Málið er að Michelle Pfeiffer lætur það virka því það er ekki bara þröngi gervileðurbúningur sem gerir hana kynþokkafulla. Við sjáum að persónan er allt í einu í fullum tengslum við sitt kynferðislega sjálf og sýnir það líkt. Allar hreyfingar minna að einhverju leyti á kött.

Lykilhluti af persónunni er einfaldlega röddin og raddbeiting hennar. Hún táldregur, hæðist og skammast. Hún breimar.

Það hefði verið áhugavert að sjá Catwoman-mynd með Michelle Pfeiffer eftir Dan Waters og í leikstjórn Tim Burton. Kannski ef Batman Returns hefði grætt meira. Ég hef ekki séð myndina sem var gerð rúmum áratug seinna.

Þannig að ef ég ætti að meta skúrka í myndum Tim Burton væri röðin:

Michelle Pfeiffer > Danny DeVito > Jack Nicholson.

Að mínu hógværa og heiðarlega mati er Batman Returns besta myndin um Leðurblökumanninn. Ég þarf að setja upp ákveðna varnagla.

1) Ég er ekki að hugsa um myndirnar í samhengi við teiknimyndasögurnar, bara aðrar Batman myndir. Mér er sama hve trú þær eru upprunalegu persónunum.

2) Ég nennti ekki að sjá Dark Knight Rises á sínum tíma og af nýrri myndunum hef ég bara séð Batman vs. Superman sem var óbærilega asnaleg og leiðinleg. Lego Batman er kannski í öðru sæti.

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★★★★★.

¹ Það er grautfúlt að Billy Dee Williams hafi ekki verið fenginn til að leika Harvey Dent í Batman Forever.

² Persóna Christopher Walken er augljóslega nefnd í höfuðið á Max Schreck, aðalleikara upprunalegu Nosferatu.

³ Danny DeVito var einu sinni herbergisfélagi mannsins sem varð til þess að Michael Douglas þurfti að kalla sig Michael Keaton.

⁴ Einn af skósveinum mörgæsarinnar er Vincent Schiavelli sem lék með DeVito í One Flew Over the Cuckoo’s Nest.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *