Heimildargerðarmaður tekur viðtal við goðsagnakennda leikkonu sem hefur lifað einangruðu lífi frá því hún yfirgaf sviðsljósið.
Millennium Actress er japönskt teiknimynd eftir Satoshi Kon. Nú skortir mig allt samhengi því ég hef ekki séð neina af mörgum marglofuðum kvikmyndum hans fyrren nú. Líklega eru jólin rétti tíminn fyrir Tókýóíska guðfeður en mig langar líka að sjá Fullkominn bláma og Paprikuna.
Í Millennium Actress er teiknimyndaformið notað til að blanda saman fortíð, samtíð og kvikmyndum sem titilpersónan lék í. Sagan greip mig fljótt og frásagnarmátinn heillaði mig þrátt fyrir að þessi frumlega nálgun sé djörf og hefði hefði með nokkrum feilsporum líklega pirrað mig. Síðan náði myndin einhvern veginn að ná lendingunni sem ég bjóst varla við.
Nú hef ég ekki djúpa þekkingu á japanskri kvikmyndagerð en sú staðreynd að ég áttaði mig strax á vísunum í Kóngulóarvefskastala¹ Akira Kurosawa gerði mér ljóst að ég væri án efa að missa af ýmsu öðru.
Maltin gefur ★★⯪☆.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍.
¹ Mér þykir alltaf frekar leiðinlegt að þurfa að nota enska titla til að tala myndir sem eru ekki frá enskumælandi löndum. Það er samt erfitt að forðast það þegar myndir eins og Throne of Blood eru nær eingöngu þekktar undir enskum titlum.
