Ríkur gaur reynir að komast yfir ótta sinn við fleyg spendýr.
Fyrsta myndin í Dark Knight-þrennu Christopher Nolan var mótefni gegn myrkraverkum Joel Schumacher. Hún er mikið dekkri og alvarlegri sem kemur stundum í bakið á henni.
Fyrsti hluti Batman Begins (byrjunin) fjallar um ferðalag sem Bruce Wayne tekur að hætti Sullivans í mynd Preston Sturges nema að hann lærir ekki jafn mikið. Þar hittir hann Ra’s al Ghul. Sá partur er tilgerðarlegur og byggir þar að auki á afskaplega kjánalegum steríótýpum. Það hefði mátt sleppa öllu þessu því í kjölfarið er myndin að mestu leyti ágætis skemmtun.
Það er ákveðinn vandi sem fylgir því að gera „alvarlega“ útgáfu af ofurhetju. Raunveruleiki og fáránleiki þurfa að ná ákveðnu jafnvægi. Þetta er ekki vandamál hjá Tim Burton í Batman Returns. Mörgæsaherinn passar við veruleikann sem myndin byggir á. Leðurblökuherinn í Batman Begins passar ekki. Þar að auki fór ég að pæla í því hvernig í ósköpunum vatnsveitukerfi Gothan-borgar virkar eiginlega og sá ekki hvernig þetta ætti að ganga upp.
Annars eru öll merki sem benda til þess að Batman sé bara persóna sem Bruce Wayne skapaði vegna þess að hann var einn og yfirgefinn. Eða er ég að rugla þessu saman við American Psycho?
Boðskapur Batman Begins er lagskiptur. Þarna er boðskapur um misskiptingu auðs og ábyrgð hinna ríku. Samt er sá hluti mjög yfirborðskenndur og í praxís er myndin bara sama gamla lemja glæpamenn. Ef Bruce Wayne vildi í alvörunni breyta Gotham þá ætti hann að nota peningana sína til að breyta kerfinu. Það er t.d. ekki nóg að byggja almenningssamgöngur heldur þarf að tryggja að rekstur kerfisins sé ekki háður góðvild hinna forríku.
Auðvitað er mjög ólíklegt að skemmtiefni sem er framleitt af stórfyrirtækjunum geti innihaldið nokkuð sem er raunverulega gagnrýnið á kerfið. Á smærri skala teiknimyndasögunnar komst Græna Örin t.d. upp með að vera með vinstrisinnaðar skoðanir en þær hurfu fljótt í sjónvarpsþáttunum Arrow.
Batman Begins er uppfull af leikurum. Líkt og þær flestar. Í þessu tilfelli eru það leikarar sem áhorfendur ættu að kannast við. Christian Bale (alltaf með Blue Steel svip undir grímunni), Morgan Freeman, Liam Neeson (skeggið er vont), Gary Oldman (í þetta sinn undir toppnum), Michael Caine, Cillian Murphy, Tom Wilkinson, Ken Watanabe, Rutger Hauer (fær ekkert að gera nema að biðja starfsmann um risastóran greiða og reka hann um leið, ekki snjallt) og Mark Boone Junior.
Svo er krúttlegur lítill fátækur strákur leikinn af Jack Gleeson. Hann fæddist í Cork á Írlandi nokkrum árum áður en Cillian Murphy hóf nám þar (við minn gamla skóla University College Cork). Að lokum varð strákurinn sem engum líkaði við konungur Westeros.
Konur í Batman Begins eru mögulegar kærustur, mömmur og einkaritari. Ekki varð ég var við að mamma Bruce Wayne ætti sér nafn eða persónuleika. Kannski var verið að reyna að bæta upp fyrir það í Batman V. Superman. Það er síðan ein kona í afmælisveislunni sem kynnir Bruce Wayne fyrir manni og hunsar algjörlega þegar glaumgosinn bregst við með stórundarlegri fullyrðingu.
Það væri hægt að segja að Community hafi eyðilagt Dark Knight-myndirnar fyrir mér en satt best að segja fannst mér bara skemmtilegra að hugsa endalaust um Abed rymjandi „Æmm Battmann“. Síðan er hægt að breyta þessu í Yoda með litlum tilfæringum á rödd og setningarskipan.
Batman Begins leið hjá án þess að ég tæki nokkuð eftir tónlistinni. Danny Elfman var sárt saknað.
Maltin gefur ★★★☆.
Óli gefur ★★★☆☆👍.
