Við fylgjumst með afmennskun nýrra bandarískra landgönguliða í þjálfunarbúðum og síðan hvernig þeir afneita mennsku Víetnama.
Það er oft sagt að Full Metal Jacket þjáist af því að fyrri hlutinn sé mikið sterkari en sá seinni. Ég held að það sé ekki satt. Þó myndi ég segja að Vincent D’Onofrio og R. Lee Ermey séu svo eftirminnilegir sem nýliðinn og liðþjálfinn að þeir skyggi svolítið á seinni hlutann.
Það háir oft bandarískum kvikmyndum um Víetnamsstríðið að þær fjalla um hve daprir hermenn þeirra séu yfir því að þurfa að fremja voðaverk án þess að sýna sjónarhorn fólksins sem þeir eru að drepa. Þar til í blálokin má segja að þetta eigi við um Full Metal Jacket en þá er þessu snúið við. Hermennirnir eru tilneyddir að horfast í augun við óvininn og áhorfendur geta borið þá saman. Það segir ekkert fallegt um Bandaríkjamenn og hernaðarmenningu þeirra.
Það sem er erfiðara að takast á við í Full Metal Jacket er hvernig við sjáum víetnamskar konur selja sig bandarískum hermönnum. Það er gert til þess að leggja áherslu á hvernig þessir menn hafa lært að koma fram við manneskjur sem hluti. Auðvitað var ekki hægt að sýna hve hryllilegt þetta var í raun en það að Kubrick blandi inn í þetta húmor er ógeðfellt. Það að línur úr þessum atriðum séu endurteknar sem brandarar til að niðurlægja asískar konur sýnir að best hefði verið að sleppa þessu alveg.¹
Er hægt að gera stríðsmynd sem sendir skýr skilaboð gegn stríði? Er ekki alltaf hægt að misskilja boðskapinn? Kubrick reyndi það ítrekað. Tókst honum það? Kannski.
Það er áhugavert að við höfum ekki fengið bandarískar kvikmyndir sem fjalla gagnrýnið um stríðin í Írak og Afghanistan. Allavega ekki á sama stigi og Full Metal Jacket, Apocalypse Now, Platoon og Casualties of War. Ætli það sé afleiðing þess að kvikmyndagerðarfólk nýrrar aldar þekki ákaflega fáa sem börðust í þessum stríðum? Herskyldan gerði það að verkum að nær allir Bandaríkjamenn þekktu einhverja sem börðust í Víetnam. Eða er þetta kannski bara vegna þess að stríðsáróður í Bandaríkjunum hefur náð að sannfæra fólk um að gagnrýni á stríð sé árás á „saklausa“ hermenn?
Ég er á því að Full Metal Jacket sé besta kvikmynd sem ég hef séð um Víetnamstríðið. Persóna Matthew Modine fellur kannski í skuggann af litríkari persónum en við sjáum hvernig hann reynir að halda sig réttum megin. Hann þarf samt alltaf að gera málamiðlanir, alveg þar til að stríðið setur hann í klemmu sem er ekki hægt að leysa án þess að glata mennsku sinni. Allt fyrir Mikka Mús stríð.
Full Metal Jacket er myndin sem gerði mig að aðdáanda Stanley Kubrick og hún er mögulega hans besta. Sú sem gæti að mínu mati verið betri er Paths of Glory sem fjallar líka um hvernig stríð sviptir fólk mennsku sinni.
Maltin gefur ★★★☆ og hreifst ekki af seinni helmingnum.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.
¹ Kvikmynd Brian De Palma Casualties of War (1989) fer aðeins í þann hluta stríðsins en býr í leiðinni til hetju sem á að sýna að þarna sé bara um að ræða slæm epli þó tunnan sjálf hafi augljósa verið rotin í gegn.
