Sönn saga af tilgerðarlegum kvikmyndagagnrýnanda sem dreymir um að verða tilgerðarlegur leikstjóri.
Nouvelle Vague er kvikmynd um gerð kvikmyndar sem ég fílaði svo lítið að ég hef kallað hana Andleysi¹ Godard. Ég geri mér alveg grein fyrir því að À bout de souffle var byltingarkennd. Hún fór aðallega í taugarnar á mér.
Af því það eru ekki allir jafn góðir í frönsku og ég² þá er rétt að nefna að titillinn vísar í frönsku nýbylgjuna. Hópur fransks gáfufólks, oft kvikmyndagagnrýnendur var ekki hrifið af því sem var að gerast í þarlendri kvikmyndagerð og ákvað að gera eitthvað nýtt sjálf.
Þannig að í Nouvelle Vague hittum við fyrir margt af mikilvægasta fólkinu sem kom að frönsku nýbylgjunni. Mér þótti skemmtilegt að persónurnar voru kynntar með skjátexta þó ég hafi stundum gleymt hver væri hvur.
Satt best að segja veit ekki nóg til að segja hverjir tilheyrðu bylgjunni og hverjir ekki. Ég fíla til dæmis Agnès Varda sem var að gera kvikmyndir á þessum tíma en var eiginlega aðeins á undan. Hún kemur líka bara snöggt fyrir í myndinni.
Þegar Jean-Luc Godard fær loksins að gera kvikmynd á eftir öllum vinum sínum er hann mjög meðvitaður um að hafa fallið á Orson Welles prófinu enda nærri þrítugur. Hann virðist ekki þakklátur fyrir tækifærið og nær að pirra alla í kringum sig, sérstaklega bandarísku leikkonuna Jean Seberg³ sem vildi mun frekar vinna með François Truffaut.
Auðvitað veit ég ekki hvað er satt. Ef ég á að trúa Nouvelle Vague þá vissi Jean-Luc Godard alveg hve tilgerðarlegur hann var og mér líkar betur við hann í kjölfarið. Þá skil ég Le Mépris sem meira sjálfsháð en ég gerði mér grein fyrir.
Leikararnir eru frábærir. Sérstakleg Guillaume Marbeck sem Godard og Zoey Deutch sem Seberg. Í heild er Nouvelle Vague alveg einstaklega vel heppnuð og skemmtileg. Ég get ekki sagt að ég hafi kafað í feril Richard Linklater en mér sýnist að þetta sé ný hlið á leikstjóranum.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍
¹ Reyndar nota ég Andleysi því fólk sem þekkir hana bara undir enska titlinum Breathless fattar strax hvað ég er að tala um.
² Sumsé, nenna ekki einu sinni að fletta þessu upp eins og ég gerði til að vera alveg viss.
³ Líf Jean Seberg er eiginlega áhugaverðari en þessi kvikmynd. Hún var ofsótt af bandarískum yfirvöldum vegna stuðnings við óæskileg samtök.
