Rankin fyrir svefninn

Svaf ágætlega í nótt enda píndi ég sjálfan mig til að sofna ekki almennilega fyrr um kvöldið (svaf reyndar í hálftíma en það hefur enginn áhrif), ég hefði samt viljað sofa lengur.

Fyrir svefninn var ég að lesa bókina The Fandom of the Operator eftir Robert Rankin, hún er ein af betri bókum hans að því leyti að maður skilur hana eftirá. Manni leiðist aldrei að lesa Rankin en stundum getur verið að bækurnar séu þannig að maður lokar þeim og spyrji þá sjálfan sig:“Hvað var ég að lesa?“ Það á hins vegar við um allar Rankin bækur að þegar maður opnar bókina þá er ekki von til þess að maður viti hvert hann sé að fara og það er gott.

Í Fandom þá er Rankin líka eins grófur og hann getur verið, ósmekklegheitin leka af henni, nóg til að hneyksla flesta held ég. Ég er bara svona forhertur að ég get lesið þessa bók tvisvar. Í henni kemur líka greining á hagkerfi nútímans og nauðsyn þess að ákveðinn hluti almennings verði að vinna algerlega tilgangslaus störf (þó hugsanlega fæst séu jafn tilgangslaus og starf aðalpersónunnar lítur út fyrir). Athugasemdir hans um hvað einkenndi lífið á hverjum áratugi seinna hluta tuttugustu aldarinnar eru líka snilld.

Rankin er alltaf þess virði, þó snilld hans sé geðveiki stundum.