The Shining (1980) ★★★★★👍👍🖖

Fjölskylda ákveður að eyða vetrinum ein á afskekktu hóteli sem á sér litríka sögu.

Ég las bókina Duld áður en ég sá myndina. Við vorum nokkrir í sjöunda bekk í Lundaskóla sem vorum að lesa Stephen King og einn þeirra lánaði mér bóksafnsbókina svo ég þyrfti ekki að fara á biðlista hjá Amtinu.

Það var ekki löngu seinna að Hafdís leigði spóluna og við horfðum á sama. Mér fannst bókin betri. Allavega þá.

Eftir að Kubrick dó voru nokkrar af myndum hans sýndar Í Nýja bíó á Akureyri þannig að ég hef áður séð The Shining í bíó.

Það er frægt að Stephen King var ákaflega ósáttur við The Shining.¹ Ég get eiginlega tekið undir það sem hann (og Maltin) sagði um að Jack Nicholson hafi ekki verið nógu eðlilegur fyrir hlutverkið. Núllstillingin hans er eiginlega á toppnum þannig að það þarf lítið til að fara yfirum. Ég er hins vegar á því að Shelley Duvall sé ákaflega góð og ferill persónu hennar er mun trúverðugra. Síðan er Danny Lloyd frábær sem strákurinn.

Auðvitað er The Shining ein ívitnaðasta mynd sem gerð hefur verið. Ég hef oft heyrt fólk endurtaka „Here’s Johnny“ línuna án þess að átta sig á að hún sé vísun í Johnny Carson. Síðan er auðvitað „All work and no play…“.

Sjónrænar vísanir í The Shining eru jafnvel ennþá algengari. Ég meina, gólfteppismynstrið sést í Toy Story (hjá óheilbrigða nágrannadrengnum Sid). Systurnar (ekki tvíburar eða hvað?) hafa líka sést víða.

Síðan eru samsæriskenningarnar. Í The Shining lék Kubrick sér að vísunum í tunglferðirnar af því að þá þegar voru komnar kenningar um að hann hafi kvikmyndað tunglendinguna (á jörðinni). Auðvitað fattaði þetta lið ekki að hann væri að gera grín að þeim og tóku þetta sem frekari sannanir fyrir ruglinu sínu.

Hljóðumhverfi The Shining er stór hluti af því sem gerir þessa mynd frábæra. Það þegar Danny hjólar yfir teppin og það dempar hljóðið af hjólunum er einhvers konar útgáfa af þessu ASMR sem krakkarnir eru alltaf að tala um. Auðvitað á þetta líka við um tónlistina hennar Wendy Carlos sem er ítrekað brædd saman við skuggaleg andrúmsloftshljóðin.

The Shining er líka falleg, jafnvel þegar hún er ógeðsleg. Ef þið hafið lesið eitthvað af þessum færslum mínum þá vitið þið að ég er veikur fyrir fallegri beitingu lita og það á vissulega við hérna. Teppið fellur til dæmis í þann flokk.

Í þetta sinn var ég að pæla í einu atriði sem ég hef áður tekið eftir og flokkað sem klúður en núna er ég eiginlega á því að þetta sé vísbending. Sumsé, Jack (leikinn af Jack) þekkir forvera sinn og segist hafa séð mynd af honum í blöðunum. Hvers vegna? Þekkti hann sögu hótelsins áður en hann sótti um? Las hann sér til áður hann þurfti að mæta? Líklega er stór úrklippubók sem við sjáum við hlið ritvélar hans í einu atriðinu svarið.

Eitt sem fólk hefur bent á sem mistök er að Wendy talar um að Jack hafi lofað að hætta að drekka eftir „atvikið“ og hafi verið þurr í fimm mánuði. Seinna í myndinni segir Jack að „atvikið“ hafi átt sér stað fyrir þremur árum. Það er engin þversögn, Jack hefur fallið í millitíðinni og Wendy fyrirgaf honum.²

Það er auðvitað ógeðfellt hvernig Stanley Kubrick kom fram við Shelley Duvall við tökur á The Shining. Ég held samt að hann hafi ekki verið einn af þeim leikstjórum sem kom sérstaklega illa fram við konur. Hann kom svona fram við marga leikara, t.d. Tom Cruise,³ af fullkomnunaráráttu. Einhver orðaði það þannig að Kubrick hafi ekki vitað hvað hann vildi, bara hvað hann vildi ekki.

Á blogginu vanda ég mig við að gefa efnisorð sem eru byggð á Wikidata. Það þýðir að stuttslóð efnisorða er alltaf á forminu Q+tala. Ég lifi í voninni að leitarvélar muni einhvern tímann nota efnisorð. Annars einkenni Stanley Kubrick á Wikidata Q2001.

Maltin gefur ★★☆☆ og var greinilega ekki glaður.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 þrátt fyrir að það þýði athugasemd frá Flosa.

¹ Svo kom framhald af The Shining og Duld. Sumsé, af þessum mismunandi útgáfum af sögunni. Ég hef ekki séð (eða lesið) Dr. Sleep og veit ekki hvort það virkaði.

² Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á að ég gæti skrifað endalaust um smáatriði í myndinni og ákvað að klára þetta bara. Ef ég horfi á heimildarmyndina Room 237 get ég fengið meiri útrás.

³ Sem mér finnst fyndið af því mér er mjög illa við Tom Cruise. Hann er lykilmaður í költi sem hefur rústað lífi fjölmargra, bæði meðlima og gagnrýnenda. Ólíkt t.d. Shelley Duvall sem átti ekkert illt skilið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *