It’s a Wonderful Life (1946)★★★★★👍👍🖖

Sparisjóðsstjóri í vandræðum hefur lifað dásamlegu lífi.

Árið 1994 ákvað Stöð 2 að sýna It’s a Wonderful Life á Aðfangadagskvöldi (en það er undarlegra að Hamlet frá 1990 var sýnd strax á eftir). Auðvitað horfði ég ekki „beint“ en ég tók hana upp á spólu. Þeim fannst sniðug hugmynd að sýna hana „litaða“, sumsé ferli sem breytti svarthvítum myndum í föllitaðar myndir. Joe Dante ber líklega ábyrgð á því að mér datt ekki í hug að horfa á myndina þannig.¹ Ég „afmettaði“ litina í sjónvarpinu til að halda tryggð við sýn Frank Capra.

Nú er söguþráðurinn ekki leyndarmál. Ég var nokkru fyrr búinn að sjá lokaþátt Dallas þar sem spilað er með hugmyndina. Mér þótti myndin góð og hef horft á hana nokkrum sinnum í gegnum árin.

Sambíóin ákváðu að sýna It’s a Wonderful Life núna fyrir jól. Ég held að þetta sé elsta mynd sem þeir hafa sýnt. Þar sem báðir synirnir voru spenntir að sjá myndina drifum við okkur. Af tilviljun var þetta hundraðasta myndin sem ég sé í bíó á árinu.²

Ef ég hefði ekki verið búinn að kaupa miða hefði ég væntanlega ekki farið í bíó. Ég vaknaði við fréttirnar af Rob Reiner og varð ákaflega dapur. Það kom mér á óvart að It’s a Wonderful Life náði að láta mér líða aðeins betur.

Það að sjá mynd í bíó er mikill hvati til að fylgjast vel með. Ég var búinn að gleyma hve góð It’s a Wonderful Life væri. Allir þræðir leiða eitthvert. Smáatriði fá merkingu þegar á líður.

Eitt það frægasta við It’s a Wonderful Life er að hún náði engum vinsældum þegar hún kom út. Leikstjórinn Frank Capra og aðalleikarinn Jimmy Stewart voru að snúa aftur eftir að hafa tekið þátt í Seinni heimsstyrjöld (Capra gerði myndir en Stewart var í virkri herþjónustu) og þurftu núna báðir að endurræsa feril sinn. Þessi mynd hjálpaði lítið. Nýstofnað framleiðslufyrirtæki Capra fór á hausinn.

Vegna þess að bandarísk höfundalög voru voðalega skrýtin þá endaði It’s a Wonderful Life í hálfgerðu limbói. Sjónvarpsstöðvar áttuðu sig á því og byrjuðu að sýna myndina fyrir jól. Hún varð því eiginlega óvart bráðnauðsynleg á bandarískum heimilum.

Donna Reed leikur eiginkonu Stewart, Thomas Mitchell (Stagecouch, High Noon) er ringlaði frændinn, Lionel Barrymore (fræg leikarafjölskylda, bróðir hans John var afi Drew) er vondi kallinn, Henry Travers er Clarence og síðan er Gloria Grahame³ eftirminnileg sem gellan sem er skotin í sparisjóðsstjóranum.

It’s a Wonderful Life er að vissu leyti ein af mörgum útgáfum af Jólasögu Dickens. Auðvitað er mörgu breytt en það er auðvelt að sjá kjarnann. George Bailey er auðvitað enginn Skröggur en aftur á móti er hann langt frá því að vera fullkominn. Þegar allt virðist vera að fara til fjandans kemur hann illa fram við fólkið í kringum sig. Hann er mannlegur. Þetta er ekki sykursæt mynd.

Að vanda vanda ég mig að forðast höskulda en ég þarf eiginlega að leyfa mér einn í þessari málsgrein. It’s a Wonderfull Life var gerð á tímum Hays-ritskoðunarinnar og ögrar henni. Lögbrjóturinn kemst upp með glæpinn. Hans eina refsing er að vera hann sjálfur. Þetta ergir líka áhorfendur enn þann dag í dag. Sjálfur er ég á því að þetta sé lykilþáttur í að gera þetta frábæra mynd.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Sjá Gremlins 2 The New Batch.

² Ég ætla ekki að skrifa neitt sérstaklega um nítugustu og níundu myndina sem ég sá. Orðið melódrama eitt sér afgreiðir hana. Það var samt skondið að sjá It’s a Wonderful Life rétt á eftir Óðali feðranna. Þær speglast nefnilega. Mynd Hrafn gæti allt eins heitið Þetta er ömurlegt líf.

³ Gloria Grahame átti sér áhugavert líf. Hún giftist leikstjóranum Nicholas Ray og seinna syni hans, fyrrverandi stjúpsyni sínum. Það var víst gerð mynd um lokakafla lífs hennar með Annette Benning í aðalhlutverki sem heitir Film Stars Don’t Die in Liverpool.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *