Sigurður Ólafsson (1951 – 2025)

Ég heyrði af „SÓ“ áður en ég hóf nám við Menntaskólann á Akureyri. Orðspor hans var slíkt og mig hlakkaði sérstaklega til að komast í áfanga sem hann kenndi. Heimspekikennsla hans stóðst væntingar.

Ég var reyndar ekki fyrirmyndarnemi. Sérstaklega náði ég að ergja hann með því að vitna mjög ítarlega í Gunnar Dal í ritgerð um René Descartes. Ekki man ég orðalagið nákvæmlega en hann sagði eitthvað á þá leið að það væri rangt að brenna bækur en ef þær væru eftir …

Sigurði Ólafssyni tókst að kveikja hjá mér áhuga á heimspeki, þó þekking mín sé frekar víð en djúp. Á háskólaárunum kom það sér mjög vel að hafa lært hjá honum. Það að geta hugsað um Das Ding an sich hefur til að mynda oft verið gagnlegt í þekkingarleit.

Þegar heimspekikennarinn barst í tal í Stekkjargerðinu man ég alltaf þegar amma sagði „Hann Siggi litli var alltaf í svo miklu uppáhaldi hjá ömmu sinni“. Umrædd amma var Rúna, elsta systir Guðmars afa. Mér finnst eins og ég hafi mögulega minnst á fjölskyldutengslin við Sigurð meðan hann kenndi mér en ég gerði ekki mikið úr þeim. Hafdís systir var líklega sneggri að útskýra þau þegar hún byrjaði að vinna með honum.

Við SÓ hittumst ekki oft eftir að Menntaskólagöngu minni lauk. Árið 2007 fór ég á fyrirlestur sem hann hélt á Borgarbókasafninu um dauðasyndina óhóf. Það sem stóð uppúr var punktur sem hann kom með um hvernig fólk kæmi sér undan gagnrýni á óhóf sitt og græðgi með því að ásaka fólk á móti um þriðju dauðasyndina, öfund. Þetta var mikilvægt innlegg á þeim tíma og líklega á öllum tímum. Við megum ekki leyfa hinum gráðugu að koma sér undan gagnrýni með slíkum hætti.

Síðast hittumst við Sigurður á ættarmóti og áttum gott spjall. Ég reyndi, og vona að ég hafi náð, að gera honum grein fyrir hve mikilvæga ég taldi kennslu hans hafa verið.

Ég sendi samúðarkveðjur mínar til fjölskyldu Sigurðar. Ég get sagt ykkur fyrir víst að við erum ótalmörg sem verðum ævinlega þakklát fyrir lexíurnar hans. SÓ gerði innilega sitt besta til að koma í veg fyrir að nemendur hans mættu sömu örlögum og René Descartes í brandaranum gamla, sumsé hugsa ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *